Landsréttarmálið hefur kostað ríkissjóð 140 milljónir

23.02.2021 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Kostnaður ríkissjóðs vegna Landsréttarmálsins svokallaða hefur nú þegar kostað ríkissjóð 140 milljónir. Þar munar mestu um kostnaðinn við þá dómara sem þurfti að setja tímabundið vegna þeirra fjögurra dómara sem fóru í leyfi eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu . Alls hefur ríkissjóður greitt 10,6 milljónir í málskostnað vegna dómsmála fyrir íslenskum dómsstólum og 11,7 milljónir í skaða-og miskabætur.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Svarið var lagt fram á Alþingi í dag.

Landsréttarmálið má rekja til þess að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra,  ákvað að skipta út fjórum umsækjendum sem dómnefnd um hæfni umsækjanda hafði metið meðal 15 hæfustu. 

Þessir fjórir voru þeir Ástráður Haraldsson, Eiríkur Jónsson, Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Jón Höskuldsson. 

Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, var einn þeirra sem varaði við því að í uppsiglingu væri hneyksli sem yrði samfélaginu dýrt.  Ráðherra væri bundinn af því að velja þá hæfustu. 

Ástráður og og Jóhannes Rúnar fóru í framhaldinu í mál við íslenska ríkið vegna málsins og höfðu sigur fyrir Hæstarétti. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði brotið lög og dæmdi ríkið til að greiða þeim skaðabætur.

Aftur dró til tíðinda í mars fyrir tveimur árum þegar Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið lög með skipun dómara við Landsrétt.  Hún sagði af sér daginn eftir niðurstöðuna. 

Íslenska ríkið ákvað að skjóta niðurstöðunni til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins. Og aftur tapaði ríkið. Kostnaðurinn af þeim málaferlum nemur rúmum 36 milljónum króna.

Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að stærsti útgjaldaliðurinn í Landsréttar-málinu sé vegna settra dómara í fjarveru þeirra fjögurra dómara sem fóru í leyfi eftir dóm undirréttar Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann er 73 milljónir króna. 

Þrír af þessum fjórum hafa verið skipaðir aftur í embætti, þau Ragnheiður Bragadóttir, Arnfríður Einarsdóttir og Ásmundur Helgason en Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, var metinn hæfari en Jón Finnbjörnsson. Þeir sóttu um stöðu sem losnaði þegar Ragnheiður var skipuð öðru sinni og sagði þá upphaflegri stöðu sinni lausri.

Fyrr í þessum mánuði dæmdi Hæstiréttur síðan tveimur dómurum í vil vegna Landsréttarmálsins. Jóni Höskuldssyni voru dæmdar 9,5 milljónir í skaða-og miskabætur og ríkið talið bótaskylt gagnvart Eiríki Jónssyni. Fram kemur í svari dómsmálaráðuneytisins að Eiríkur hafi gert sátt við íslenska ríkið um bætur uppá 700 þúsund. Þeir hafa báðir verið skipaðir dómarar við dómstólinn.

Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að kostnaðurinn við öll þessi málaferli fyrir íslenskum dómstólum sé 10,6 milljónir og að samanlagt hafi ríkissjóður greitt þeim umsækjendum sem ekki fengu dómarastöðu við Landsrétt á sínum tíma 11,7 milljónir í skaða-og miskabætur.