Læknirinn á Suðurnesjum ekki lengur með starfsleyfi

Hönd í vasa læknisslopps og hlustunarpípa.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Landlæknir og lögregla eru með nokkur mál til skoðunar þar sem læknir, sem vann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja frá 2018 til 2020, er grunaður um að hafa veitt sjúklingum líknandi meðferð á vafasömum forsendum. Læknirinn er ekki lengur með gilt starfsleyfi. Hann vann hjá stofnuninni í tæpt ár eftir að kvörtun barst vegna andláts sjúklings í hans umsjá. Stjórnendur stofnunarinnar vilja ekki veita viðtöl vegna málsins.

Ekki lífshættulega veik í líknandi meðferð

Embætti Landlæknis segir í áliti sínu nú 18. febrúar að þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja við sjúkling, sem lést á sjúkradeildinni þar 2019, hafi verið verulega ábótavant, ófagleg og ekki samræmast viðurkenndu verklagi. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var það kona um áttrætt sem lést í umsjá læknis á spítalanum. Konan átti við veikindi að stríða, en var ekki lífshættulega veik, og hafði verið sett í líknandi meðferð.

Sendur í leyfi og sagði svo upp

Framkvæmdastjórn stofnunarinnar sendi frá sér yfirlýsingu í gær, eftir að Stöð 2 bað um viðbrögð vegna fréttar sinnar um málið. Í yfirlýsingunni segir að málið sé alvarlegt, atburðurinn harmaður og aðstandendum vottuð samúð. Þá stendur að læknirinn sem hafi borið ábyrgð á meðferð sjúklingsins hafi verið sendur í leyfi og síðann sagði hann upp. Hann hafði unnið sem læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja síðan í byrjun árs 2018. 

Vann áfram í tæpt ár eftir að konan lést

Konan lést í nóvember 2019 og kvörtuðu aðstandendur um meðferð hennar skömmu eftir það. Samkvæmt upplýsingum RÚV var læknirinn ekki sendur í leyfi fyrr en í ágúst 2020, um tíu mánuðum eftir að konan lést, eða um leið og embætti Landlæknis skilaði fyrra áliti sínu. Hann sneri ekki aftur til starfa á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og er ekki lengur með gilt starfsleyfi sem læknir, samkvæmt starfsleyfaskrá Landlæknis sem er uppfærð daglega. 

HSS skoðaði fleiri mál og sendi áfram

Framkvæmdastjórn HSS skoðaði fleiri mál tengd lækninum og sendi þau áfram til Landlæknis og sum til lögreglunnar. Læknirinn sætir nú rannsókn vegna nokkurra mála þar sem grunur leikur á alvarlegri vanrækslu eða mistökum hans við umsjón sjúklinga. Samkvæmt upplýsingum RÚV var læknirinn með gilt starfsleyfi þegar hann tók til starfa hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 2018. Stjórnendur HSS hafa ekkert viljað tjá sig og sömu sögu er að segja um landlæknisembættið, þar sem málin eru í rannsókn. Þá eru sömuleiðis álit Landlæknis flokkuð sem trúnaðargögn. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV