Hver elskar barnið sitt mest?

Mynd: TV 2 / DNA

Hver elskar barnið sitt mest?

23.02.2021 - 12:58

Höfundar

Byrjunaratriðið í dönsku þáttunum DNA sem sýndir eru á RÚV um þessar mundir sýnir líklega skelfilegustu martröð flestra foreldra. Barn rannsóknarlögreglumannsins Rolfs fellur fyrir borð í ferju í miklu óveðri og finnst aldrei aftur, eða hvað? Júlía Margrét Einarsdóttir gagnrýnandi Lestarinnar rýnir í þættina.

Aðalsöguhetja dönsku þáttanna DNA er rannsóknarlögreglumaðurinn Rolf Larsen sem leikinn er af Anders W. Berthelsen. Hann minnir um margt á kunnuglega aðalpersónu sem við þekkjum vel úr íslensku og skandínavísku löggudrama; þögla týpan, alvarlegur og illa greiddur en einhvern veginn heiðarlega gallaður og óþrjótandi réttsýnn. Hann virkar strax traustsins verður á fyrstu mínútum og það þarf ekki löng kynni til að sannfærast um að fylgja honum í spennandi ferðalagið sem þessir átta þættir eru.

Dóttir hans virðist hafa dottið fyrir borð og drukknað

Rolf er í upphafsatriðinu staddur í ferju á leið til Póllands til að rannsaka barnsrán sem átti sér stað dönskum leikskóla þegar dansk-albanskt barn var numið á brott um hábjartan dag. Hann er með sitt eigið kornabarn í för, dóttur sína sem hann tók hikandi með sér í leiðangurinn því barnsmóðir hans er erlendis og barnfóstran veðurteppt. Hinn möguleikinn hefði verið að fylgja ekki eftir mikilvægri og tímaviðkvæmri vísbendingu í máli þar sem líf leikskólabarns er í húfi og það getur hann ekki hugsað sér, hann er góður og barnelskur og frábær. EN hann verður sjóveikur í óveðri og öldugangi og þegar hann bregður sér afsíðis til að kasta upp og lítur af vagninum í örskamma stund, hverfur dóttir hans sporlaust. Svo virðist sem hún hafi drukknað á leiðinni. Viti sínu fjær af harmi og sorg nær hann ekki að fylgja rannsókninni eftir.

Auðvitað gruna allir Albanann

Horfna leikskólabarnið finnst ekki en samkomulag fæst um að íranskur faðir barnsins hljóti að vera sekur um að hafa numið það á brott, eins og auðvitað alla nema Rolf grunaði. Í þessum hluta málsins er farið inn á fordóma í vestrænu samfélagi gagnvart innflytjendum og flóttamönnum því það verður ljóst að þjóðerni föðursins er helsta ástæða þess að allir telja hann án nokkurs vafa hafa numið barnið á brott. Sorgmæddur íranski faðirinn er yfirheyrður á mjög óþarflega ofstækisfullan hátt og svo lætur hann sig hverfa. Málinu er lokið fyrir flestum en aldrei almennileg fyrir Rolf. 

Íbygginn og réttsýnn einsetumaður í sveitinni

Fimm ár líða, Rolf er skilinn við barnsmóður sína, Mariu Larsen, og fluttur burt frá Kaupmannahöfn í eitthvað krummaskuð og gengur þannig fullkomlega upp í klisju skandinavíska rannsóknarlögreglumannsins, þögla einsetumannsins í sveitinni. Og klisjan á heima hér, það hentar Rolf og þáttunum akkúrat passlega að hafa hann í stafni, svona gallaðan, manneskjulegan og fullkominn í senn.

Biður pabba að sækja sig

Honum tekst ekki sama hvað hann reynir að sætta sig við að dóttir hans hafi fallið um borð og látist í ferjuferðinni örlagaríku. Hann dreymir dóttur sína hverja nótt þar sem hún biður pabba að sækja sig. Rolf er yfirbugaður af söknuði og sorg og ekkert kemst að í lífi hans nema vinnan og draumarnir um dóttur hans.

Norðmaður sem fer á skíði, ilmar vel og greiðir sér

Barnsmóður hans hefur tekist betur en honum að horfast í augu við andlát frumburðarins og slysið sem allt bendir til að hafi átt sér stað. Hún hvetur Rolf til að álasa sjálfum sér ekki lengur og virðist hafa fyrirgefið honum gáleysið. Hún er sjálf komin með annan og töluvert yngri mann upp á arminn sem auk þess að vera norskur er augljóslega fjallageit sem fer í sturtu þrisvar á dag, á prýðisgóða hárgreiðu, dregur fram skíðin í hvert sinn sem viðrar til þess og stundar innhverfa íhugun. Sá hefur ekkert unnið sér til saka annað en að vera sætur og með lífið á hreinu en það er nóg til að við höfum ímugust á honum, við sem tengjum við ógreidda kvíðaböggulinn hann Rolf. 

Galli í DNA-gagnagrunni lögreglunnar

Svo verða vendingar í lífi Rolfs. Þegar í ljós kemur grafalvarlegur galli í DNA-gagnagrunni lögreglunnar vaknar von hjá Rolf um að hann geti fundið leikskólabarnið sem hann hélt af stað að leita að fimm árum fyrr, og aðeins veikari, en þó von, um að veikleiki rannsóknarinnar geti þýtt hans eigin dóttir sé eftir allt saman enn á lífi. Og þar fara hárin að rísa og sagan fer af stað. Franska lögreglan rannsakar samtímist morðmál sem virðist teygja anga sína mun víðar um heim en fyrst var talið, og tengjast barnshvarfinu í Kaupmannahöfn. Frönsk rannsóknarlögreglukona, Claire, fær Rolf til liðs við sig til og saman fara þau í saumana á málinu.

Ranglát lög um þungunarrof í Póllandi

Hliðarsagan sem kynnt er til sögunnar fjallar um unga pólska konu, Zofiu, sem gengur með sitt fyrsta barn. Hún má ekki láta rjúfa þungun samkvæmt pólskum lögum og það er farið vel inn á óréttlætið sem pólskar mæður eru beittar í sínu heimalandi með núgildandi lögum um þungungarrof sem harðlega hafa verið gagnrýnd um allan heim. Hliðarsagan af Zofiu er stundum aðeins hæg en virkilega áhugaverð. Það er hins vegar lengi erfitt að sjá hvernig sagan af henni tengist máli Rolfs en fléttan er virkilega góð og þétt ofin og kurlin skríða jafnt og þétt til grafar með viðkomu í Danmörku, París og Póllandi, meðal annars.

Engin gömul morðóð kona með kleinur

Í þessari fléttu reynast sannarlega óvæntir þræðir en margt virðist líka nokkuð fyrirsjáanlegt. Stundum virðist sem handritshöfundar og leikstjórar leggi ekki allt í sölurnar við að reyna að afvegaleiða áhorfandann og fá hann til að horfa í ranga átt. Ekki eins og í hefðbundnum til dæmis breskum morðráðgátum, þar sem morðinginn reynist þegar vel tekst vera til dæmis góða gamla konan með kleinurnar sem varð næstum fyrir barðinu á morðingjanum sem reyndist eftir allt vera hún sjálf. Þar sem áhorfandinn hugsar: Hvernig getur það verið? en á sama tíma: Hvernig sá ég þetta ekki strax? 

Ekki hægt að hætta að horfa

Það er þvert á móti margt í þessari sögu hér sem hættir að koma á óvart þegar á líður en að lokum bitnar það ekki mikið á áhorfinu. Þættirnir eru þrátt fyrir að sumt sé eins og mann grunaði svo æsispennandi að öðru leyti að það er nánast ómögulegt, eða var að minnsta kosti fyrir mig, að byrja á þeim fyrsta án þess að klára þá alla í einni beit. Hver þáttur skilur mann að einhverju leyti eftir hangandi á sleipri klettabrún sem ómögulegt virðist að komast upp öðruvísi en að smella á þríhyrninginn á næsta þætti og fá að vita meira.

Kynþáttafordómar, foreldrahlutverkið, söknuður og sektarkennd

Hér er um að ræða annað og kannski meira en hefðbundna hver gerði hvað-gátu. Þetta er pólitískt kórréttur spennutryllir sem veigrar sé ekki við því að fara á dýptina og spyrja áleitinna spurninga um kynþáttafordóma, þungunarrof, staðgöngumæðrun, foreldrahlutverkið, ættleiðingar, um söknuð og sektarkennd og hvað felst í að elska barn af öllu hjarta. Og sumum þessara flóknu spurninga er þegar upp er staðið þokkalega vel svarað.

Góð karaktersköpun og vel skrifuð samtöl

Karaktersköpun er virkilega góð og samtölin áreynslulaus enda skrifa þættina engir aukvisar í bransanum. Þar fara fremst þau Torleif Hoppe sem þekktur er fyrir Broen og Forbrydelsen meðal annars sem eru íslenskum áhorfendum vel kunnugir og Nanna Westh sem er meðal höfunda þáttanna Ulven kommer sem einnig eru aðgengilegir á spilara RÚV og hafa vakið mikla eftirtekt. Leikstjórar eru Henrik Ruben Genz og Kasper Gaardsøe. 

Æsispennandi saga

Þættirnir ríghalda manni á mörkum örvæntingar og vonar og segja æsispennandi sögu, hnýta svo vel saman hvern hnút svo í lokin stendur eftir áhugaverð heildarmynd sem vekur mann til umhugsunar um ótalmargt.

Fyrir þá sem kunna að meta vel unna spennuþætti sem skilja áhorfandann eftir vel mettann með alls kyns vangaveltur um ástina, mannleg samskipti og lífið, þá eru DNA réttu þættirnir. Hér er hægt að horfa á þáttaröðina í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Og þá var slegist, reykt og slúðrað í höllinni

Sjónvarp

Sjálfsfróun sænsku menningarelítunnar

Sjónvarp

Langsótt draugatangó sem eykur teþorsta