Glæsimark Giroud tryggði Chelsea sigur í Rúmeníu

epa09032665 Chelsea’s Olivier Giroud (L) scores the opening goal during the UEFA Champions League round of 16, first leg soccer match between Atletico Madrid and Chelsea FC in Bucharest, Romania, 23 February 2021.  EPA-EFE/ROBERT GHEMENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Glæsimark Giroud tryggði Chelsea sigur í Rúmeníu

23.02.2021 - 21:53
Chelsea og Bayern München eru í afar góðri stöðu eftir góða útisigra í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Chelsea sigraði Atletico Madrid með einu marki gegn engu á meðan að Bayern München fór illa með ítalska liðið Lazio og vann 4-1.

Í Búkarest í Rúmenía mættust Atletico Madrid og Chelsea. Leikurinn flokkast sem heimaleikur Atletico Madrid þrátt fyrir að leikvangurinn sé nær Lundúnum en Madrid. Sóttvarnaaðgerðir spænskra stjórnvalda komu í veg fyrir að enska liðið gat keppt á Spáni og því þurfti að færa leikinn.

Fyrri hálfleikurinn einkenndist af taktískri baráttu beggja liða. Heimamenn byrjuðu leikinn þó ögn betur en lið Chelsea slapp ávallt með skrekkinn. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn náði Chelsea meiri stjórn á leiknum án þess að skapa sér ákjósanleg færi. 

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri þar sem liðin nánast núlluðu hvort annað út. En á 68. mínútu skoraði Olivier Giroud glæsilegt mark með bakfallsspyrnu. Markið var upphaflega dæmt af vegna rangstöðu en við nánari skoðun kom í ljós að boltinn fór af leikmanni Atletico Madrid þegar hann barst til Giroud og markið því gott og gilt. 

Fátt markvert gerðist í kjölfarið og sigur Chelsea því staðreynd. Liðið er því komið í ákjósanlega stöðu fyrir seinni leikinn sem fer fram á Stamford Bridge eftir þrjár vikur.

Öruggur sigur Bayern í Róm

Í Róm tóku heimamenn í Lazio á móti ríkjandi meisturum Bayern München. Þjóðverjarnir voru án Thomas Muller sem er í einangrun eftir að hafa greinst með COVID-19 og í hans stað byrjaði hinn 17 ára gamli Jamal Musiala inn á fyrir Bayern.

Það tók Robert Lewandowski aðeins 9. mínútur að opna markareikning sinn í kvöld þegar hann skoraði eftir slæm varnarmistök hjá Lazio. Á 24. mínútu varð Musiala svo yngsti leikmaður Bayern, og jafnframt yngsti Englendingurinn, til að skora í Meistaradeild Evrópu þegar hann skoraði með góðu skoti og kom gestunum í 2-0. Áður en flautað var til hálfleiks kom Leroy Sane þýska liðinu í 3-0 þegar hann skoraði eftir frábæra skyndisókn. 

Bayern München byrjaði seinni hálfleik af krafti og eftir tvær mínútur varð Francesco Acerbi fyrir því óláni að skora sjálfsmark og Bayern München því komið í 4-0. Stuttu síðar náði Joaquin Correa að klóra í bakkann fyrir Lazio með góðu einstaklingsframtaki. Fleiri urðu mörkin ekki og öruggur sigur Bayern München því staðreynd.