Fundu svakalega loðnutorfu vestur af landinu

23.02.2021 - 15:55
Mynd með færslu
Loðnutorfan á mælum Polar Amaroq Mynd: www.svn.is
Grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq sigldi yfir mjög stóra loðnutorfu vestur af landinu í gær. Skipstjórinn telur að þar séu nokkur hundruð þúsund tonn á ferðinni. Þá hefur rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar verið sent til loðnumælinga fyrir norðan land.

Að lokinni löndun í Hafnarfirði í gær ákvað Geir Zoëga, skipstjóri á Polar Amaroq, að kanna hvort loðnu væri að finna í Jökuldýpinu norðvestur úr Garðskaga. Hann þurfti ekki að leita lengi.

„Við komum hérna í svakalega torfu. Hún er tæpar fimm sjómílur á lengd og þétt. Hún er frá kili og niður undir botn. Hér er sko alvöru vertíðarganga á ferðinni. Þetta hljóta að vera nokkur hundruð þúsund tonn,“ er haft eftir Geir á vef Síldarvinnslunnar. „Við erum nú að mæla þessa risalóðningu og síðan ætlum við að svipast frekar um. Þessi ganga hér verður væntanlega komin inn á Breiðafjörð um helgina og mun líklega hrygna þar í næstu viku.“

Það eru víða fréttir af loðnu en íslensku skipin hafa mest verið að veiðum undan Suðurlandi. Geir segir að svo virðist sem það sé loðna vestan úr Faxaflóa og austur með allri suðurströndinni. Þá fréttist af loðnu norðan við land, við Grímsey og út af Skjálfanda.

Fréttirnar að norðan urðu til þess að hlé var gert á leiðangri rannsóknarskipsins Bjarna Sæmundssonar, sem hefur verið við rannsóknir á ástandi sjávar, og það sent til loðnumælinga. Skipið er nú að mæla loðnu fyrir norðan land og er þessa stundina beint norður af Grímsey.