
Fréttir: Umtalsverðar tilslakanir og 50 mega koma saman
Í skólum mega 150 verða í rými og fullorðnir fá að vera inni í leik- og grunnskólum. Þar verður almenna reglan einn metri.
Landlæknir og lögregla eru með nokkur mál til skoðunar þar sem íslenskur læknir, sem vann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 2018 til 2020, er grunaður um að hafa veitt sjúklingum líknandi meðferð á vafasömum forsendum. Að minnsta kosti eitt andlát hefur verið tilkynnt. Læknirinn er ekki lengur með gilt starfsleyfi.
344 tilkynningar hafa borist vegna gruns um aukaverkun eftir bólusetningar gegn COVID-19. Fimm prósent af þeim eru alvarlegar. Forstjóri Lyfjastofnunar segir að tilkynnt hafi verið um tíu dauðsföll sem ekki er talið líklegt að tengist bólusetningunni sjálfri. Tilkynnt hefur verið um fjögur tilfelli af tímabundnum andlitsdofa hér á landi.
Stjórnendur Facebook tilkynntu í morgun að banni við dreifingu fréttaefnis ástralskra fjölmiðla verði aflétt, þar sem stjórnvöld í Ástralíu hefðu fallist á ákveðnar breytingar á boðaðri löggjöf um gjaldtöku vegna birtinga fréttaefnis á Facebook.