Formaður KKÍ: Þetta skiptir félögin miklu máli

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Formaður KKÍ: Þetta skiptir félögin miklu máli

23.02.2021 - 12:38
Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, fagnar þeim tilslökunum sem kynntar voru í morgun. 200 áhorfendur mega mæta á íþróttaviðburði frá og með morgundeginum eftir algjört áhorfendabann frá því í október á kappleikjum. „Það er virkilega ánægjulegt að áhorfendur og stuðningsmenn félaganna megi koma aftur inn í íþróttahúsin,“ segir Hannes. Nýja reglugerðin sé í takt við vonir og væntingar íþróttahreyfingarinnar.

„Þetta er í samræmi við þá von sem við höfum haft síðustu vikur og höfum unnið með að áhorfendur yrðu leyfðir í þessum tilslökunum,“ segir Hannes og bætir við að þó að „einungis“ sé um 200 áhorfendur að ræða skipti það miklu máli fyrir félögin.

„Auðvitað er frábært að fá stemningu aftur í íþróttahúsin og svo skiptir þetta líka miklu máli fjárhagslega. Þrátt fyrir að þetta séu innan gæsalappa bara 200 áhorfendur þá eru þetta 200 stuðningsmenn sem geta greitt sig inn á leiki og þannig stutt enn frekar á bakvið félögin,“ segir Hannes en bætir við. „Reyndar hafa stuðningsmenn verið duglegir að styrkja félögin með því að kaupa aðgangsmiða þrátt fyrir að komast ekki á leiki. Þeir hafa því sýnt góðan stuðning í verki undanfarnar vikur og mánuði.“

Fylgir því ábyrgð að fá áhorfendur í húsin

Til að geta tekið á móti 200 áhorfendum þurfa félög að uppfylla nokkur skilyrði. Þannig þarf að passa að allir áhorfendur snúi í sömu átt, einn metri þarf að vera á milli óskyldra aðila, áhorfendur þurfa að nota grímur og kaupa miða í númeruð sæti. Hannes telur að félögin geti staðist þessar kröfur. 

„Auðvitað gæti þetta orðið snúið í byrjun. En ég er sannfærður um að þetta muni allt takast og að félögin geri þetta vel því það er mikill vilji innan þeirra til að láta þetta ganga upp. En það fylgir því ábyrgð að fá áhorfendur inn í húsin og það þarf að gera þetta áfram 100% vel eins og íþróttahreyfingin hefur gert í öllum sóttvarnarmálum hingað til.“