Fjórir hnúfubakar í fyrstu hvalaskoðunarferðinni

23.02.2021 - 10:20
Mynd með færslu
 Mynd: Norðursigling
Norðursigling fór í sína fyrstu hvalaskoðunarferð á þessu ári um síðustu helgi. Tuttugu manna hópur sá meðal annars fjóra hnúfubaka í ferðinni. Daglegar hvalaskoðunarferðir fyrirtækisins hefjast um mánaðarmót.

Það var hópur Íslendinga, ásamt nokkrum erlendum ferðamönnum, sem voru farþegar í þessari fyrstu hvalaskoðunarferð ársins. Farið var á Náttfara, einum af eikarbátum Norðursiglingar.

Heimir Harðarson, skipstjóri, segir að ferðin hafi tekist mjög vel. Eftir aðeins um 15 mínútna siglingu birtust fjórir hnúfubakar, farþegunum til mikillar gleði. „Þetta var hvalaskoðun eins og hún gerist best á Skjálfanda og það um miðjan febrúar. Þetta lofar vissulega góðu með framhaldið,“ segir Heimir.

Mynd með færslu
 Mynd: Norðursigling
Hnúfubakar í fyrstu hvalaskoðunarferð Norðursiglingar

Daglegar hvalaskoðunarferðir Norðursiglingar hefjast 1. mars, líkt og undanfarin ár. Stefán Jón Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri, segir bókanir fari rólega af stað. Þrátt fyrir það sé mikilvægt að halda þeirri áætlun sem gefin hefur verið út og bjóða afþeyingu fyrir þá sem þó eru á ferðinni. Bókanir berist nú með skemmri fyrirvara. „Þetta er svipað útlit og fyrir síðasta sumar, þá fór allt af stað í júlí. Viðbúið er að erlendum ferðamönnum fjölgi þegar líður á sumarið, eins og spár gera ráð fyrir. Við fengum töluvert af Íslendingum í hvalaskoðun hjá okkur í fyrrasumar og vonandi halda þeir áfram að nýta sér þjónustuna. Við hlökkum til að taka á mótin þeim í sumar.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV