Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjöldatakmarkanir rýmkaðar og áhorfendur á íþróttaleiki

23.02.2021 - 11:50
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RUV
Samkomutakmarkanir verða rýmkaðar úr tuttugu í fimmtíu manna hámark frá og með morgundeginum. Þá verður einnig heimilt að hafa allt að 200 manns á vissum viðburðum að uppfylltum öðrum skilyrðum, svo sem sviðslistum og íþróttaviðburðum. Þar með verður því í fyrsta skipti frá síðasta hausti heimilt að hleypa áhorfendum inn á kappleiki. Opnunartími veitingastaða og kráa lengist um klukkustund.

Þessu greindi Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra frá að loknum fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Reglurnar taka gildi á morgun.

50 í stað 20 að hámarki

„Það sem er kannski mikilvægast og stendur upp úr er að við hækkum úr 20 í 50 þessar almennu fjöldatakmarkanir,“ sagði Svandís. „Við erum áfram með tveggja metra regluna og grímur og þessi almennu varúðarsjónarmið. Við gerum ráð fyrir að heimila allt að 200 í tiltekinni starfsemi, við erum þá að tala um söfn og þvíumlíkt, en líka sviðslistir og íþróttaviðburði þar sem hægt er að tryggja að það sé einn metri á milli óskyldra aðila og það sé hægt að halda til haga upplýsingum sem eru skráðar um hvern og einn. Það er til að tryggja smitrakningu ef til kemur.“

Í skólum mega 150 verða í rými og fullorðnir fá að vera inni í leik- og grunnskólum. Þar verður almenna reglan einn metri. Breytingin á skólastarfi verður að óbreyttu fram á vorið. Hinar breytingarnar gilda í þrjár vikur.

Reglur sem þarf að uppfylla í stað ákveðinna viðburða

Svandís sagðist að mestu hafa farið eftir tillögum sóttvarnalæknis. Breytingar hafi þó verið gerðar á reglum sem leyfa fleiri en 200 við ákveðnar aðstæður. Þar hefur verið miðað við listviðburði, svo sem leiksýningar, en nú eru reglurnar ekki afmarkaðar fyrir ákveðna tegund viðburða.

„Við gerðum í sameiningu breytingar sem lúta að því að láta almennar reglur gilda frekar en að tiltaka sérstaka tegund af viðburðum, hvað varðar þessa 200 manna reglu, til að auka skýrleikann. Þannig að fólk átti sig á því að það þarf bara að uppfylla ákveðin skilyrði og þá geta verið 200 saman í rými.“

Sá sem heldur viðburðinn þarf að tryggja nokkra þætti, svo sem að fólk vísi allt í sömu átt, metri sé á milli óskyldra aðila og hægt sé að halda upplýsingar um hvern og einn sem var á viðburðinum.

„Umtalsverðar tilslakanir“

„Þetta eru umtalsverðar tilslakanir núna enda hefur okkur gengið vel og það var gott að fá tvöfalt núll í morgun,“ sagði Svandís og vísaði til þess að hvorki greindist smit innalands né á landamærunum í gær.

Áhorfendur á íþróttaleikjum

Áhorfendum verður leyft að koma á íþróttaleiki, allt að 200 manns. „Að því gefnu að fólk geti setið í sætum, það sé metri á milli óskyldra aðila og fólk sé með grímur. Ef það er ekki hægt að koma því við gilda reglurnar um 50 í rými eins og almenna reglan er. Þannig að þetta er breyting fyrir íþróttaðdáendur,“ sagði Svandís.

Opnunartími veitingastaða og kráa verður rýmkaður. Frá og með morgundeginum mega gestir koma inn á þá staði til klukkan tíu á kvöldin en verða að vera farnir klukkan ellefu. Hvort tveggja er klukkutíma fyrr en verið hefur hingað til.

Að auki verður rýmkað um starfsemi sundlauga og líkamsræktarstöðva. Hér eftir mega koma inn 75 prósent af leyfilegum hámarksfjölda sem gildir við hefðbundnar aðstæður. 

12:03 Fréttin hefur verið uppfærð.