Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fagnar því að fá aftur stuðningsmenn í stúkuna

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV

Fagnar því að fá aftur stuðningsmenn í stúkuna

23.02.2021 - 18:08
Steinunn Björnsdóttir, handboltakona og fyrirliði Fram í meistaraflokki kvenna, fagnar breytingum á sóttvörnum og hlakkar til að fá áhorfendur á leiki. Handboltafólk hefur leikið án áhorfenda allt tímabilið, fram að þessu. Steinunn segir starfsfólk Fram reiðubúið til að taka á móti fólki í stúkuna í númeruð sæti og með eins metra millibili.

Allt að 200 áhorfendur mega vera á íþróttaviðburðum frá og með morgundeginum að uppfylltum nokkrum skilyrðum:

  • Að gestir séu sitjandi og ekki andspænis hver öðrum
  • Allir gestir séu skráðir
  • Allir gestir noti andlitsgrímu
  • Tryggt sé að fjarlægð sé a.m.k. 1 metri milli ótengdra gesta
  • Áfengisveitingar séu óheimilar
  • Komið verði í veg fyrir, eins og kostur er, frekari hópamyndun fyrir viðburð, í hléi og eftir viðburð

Steinunn segir að það verði vel framkvæmanlegt að fara að reglunum. Langt er síðan áhorfendur voru á leikjum Fram.

„Við fögnum þessu vel“

„Það hafa ekki verið neinir áhorfendur á þessu tímabili. Þannig að það voru gleðifréttir í morgun, að talan sé komin upp í 200. Meðalfjöldi áhorfenda á leik hjá okkur 150-200. Þannig að við fögnum þessu vel,“ segir Steinunn. 

Hvaða áhrif hefur það á leikmenn að hafa enga í stúkunni?

„Það hefur mjög mikil áhrif þó svo að maður vilji náttúrulega meina að þegar maður er kominn inn í leikinn, þá einbeiti maður sér að honum. En það hefur mikil áhrif á stemninguna, lætin og finna fyrir stuðningi. Það er oft talað um að áhorfendur séu þessi auka liðsfélagi sem þarf til þess að ná góðum sigrum og slíkt. Við erum svo heppin hérna í Fram að eiga frábæra áhorfendur. Þannig að við hlökkum mikið til að fá þá aftur inn í sal,“ segir Steinunn. 

Tapa á hverjum leik án áhorfenda

„Jú, ég myndi halda að þetta væri þríþætt. Þetta hefur áhrif á okkur sem leikmenn og starfsfólk. Þetta hefur verið þungur vetur og félögin þurfa að standa undir dómarakostnaði til dæmis. Þannig að félög tapa á öllum heimaleikjum. Það er ekki mjög mikill peningur í þessu. Það er mikið af sjálfboðaliðum sem vinna frábært starf við að ná inn styrkjum. Tekjur af áhorfendum hjálpa mikið til að standa undir grunnkostnaði við hvern leik,“ segir Steinunn.

Hversu miklu getur félagið verið að tapa á leik vegna dómarakostnaðar og fleira?

„Ég myndi halda að þetta væri í kringum 30 til 60 þúsund í hverjum leik sem fer í dómarakostnað. Það er hellingspeningur fyrir félag sem stólar aðallega á tekjur frá áhorfendum og styrktaraðilum,“ segir Steinunn. 

Vel framkvæmanlegt að skrá áhorfendur

Hún segir að það sé ekkert mál fyrir Fram að halda utan um skráningu á áhorfendum. „Við höfum verið að styðjast við appið Stubbur. Þannig að allir sem koma á leikinn þurfa að kaupa miða fyrirfram á leikinn þar sem þeir skrá inn upplýsingar, nafn og símanúmer og slíkt. Þeir sem eru með árskort hafa verið skráðir niður sér. Þá er ekkert mál að halda utan um áhorfendur sem mæta á leikina. Það er vel hægt að rýma hérna til og halda eins metra fjarlægð milli óskyldra aðila,“ segir Steinunn. 

Hvenær spilið þið fyrir áhorfendur?

„Við eigum útileik næst á Ásvöllum á móti Haukum sem er risastórt hús. Þannig að það er eins gott að það mæti 200 manns,“ segir Steinunn. 

Og þið vitið að það eru margir sem eru mjög spenntir að fá að koma og horfa á ykkur?

„Já, maður finnur það alveg. Fjölskylda mín styður þétt við bakið á mér. Það eru mamma, pabbi, systkin, frændur og frænkur sem koma á leiki. Þau eru ótrúlega spennt að koma. Auðvitað er líka félagslegt fyrir fjölskyldur. Það er ótrúlega gaman að vita af fjölskyldunni sinni uppi í stúku og koma saman og spjalla. Þetta er risastór hluti af mínu lífi og fjölskyldu minnar,“ segir Steinunn.
 

Tengdar fréttir

Innlent

Býst við meiri staðkennslu samhliða tilslökunum

Innlent

Fjöldatakmarkanir rýmkaðar og áhorfendur á íþróttaleiki