
Engin inflúensa í ár hér eða í Evrópu - ennþá
Engin inflúensutilfelli greinst
Samkvæmt gögnum frá veirurannsóknardeild Landspítalans hafa ekki greinst inflúensutilfelli fram til 14. febrúar og Már hafði síðast samband við deildina í gær og fékk þær upplýsingar að engin inflúensa hafi greinst í ár. Hann segir að mjög svipað hafi átt sér stað í Evrópu. Engin nýgreining á inflúensu hafi verið þar í ár.
Einnig hafi lítið greinst af RS-veirunni hér á landi sem oft hefur verið í hámæli hér á landi um þetta leyti árs.
Meira af heilahimnubólgu af völdum Enteroveira
Aftur á móti hefur greinst óvenjulega mikið af heilahimnubólgu af völdum Enteroveira sem undir venjulegum kringumstæðum gangi síðsumars og snemma á haustin. „Þetta er ekki alvarlegt í þeim skilningi að það leiði til örkumla. Þetta getur verið þrálátt og leiðinda höfuðverkur. Það eru skráð Enteroveirugreiningar, [.......] Ég hygg að þetta sé vel á annan tug sem við höfum greint.“
Óljóst hver er árangursríkasta aðgerðin
Engin skýring liggur fyrir á hvers vegna minna er um inflúensu og meira af Enteroveiru á þessum árstíma. Hins vegar er augljóst að fólk hegðar sér öðruvísi vegna Covid-19. „Sérstaklega frá vori og miðju sumri hefur grímunotkun orðið mjög almenn hér á Íslandi og víðast hvar í Evrópu og víðast hvar í heiminum reyndar. Og náttúrlega þessi gegndarlausi áróður um fjarlægðarmörk, samkomutakmarkanir, handþvott og allt þetta. Ég er viss um að þetta hefur eitthvað með þetta að gera en nákvæmlega hvað í þessum aðgerðum hefur verið árangursríkast eða er mesti áhrifavaldurinn það veit ég ekki nákvæmlega.“
Meira bólusett við inflúensu
Um 80 þúsund skammtar af bóluefni við inflúensu voru keyptir í ár sem er meira heldur en undanfarin ár. „Það er samt ekki nóg til að bólusetja alla og skýra þetta allt saman.“
Tiltölulega langt er síðan síðasti heimsfaraldur af influensu var, eða árið 2009, og ennþá tilölulega mikið ónæmi í fólki. „Þannig að núverandi bólusetningar og þetta allt saman og síðan þetta hreinlæti sem hefur verið það virðist vera það víðtækt að inflúensan nær sér ekkert á strik hvorki á Suðurhveli síðastliðið sumar eða núna á Norðurhveli í þennan veturinn.“