Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ekki nóg að nefna tölu sem ríkið verði að borga

23.02.2021 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er ekki nóg að nefna einhverja tölu fyrir ríkið til að borga heldur verður að greina hvað býr að baki, sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Þetta sagði hún í umræðum á Alþingi í dag um stöðu hjúkrunarheimila eftir að sveitarfélög hafa sagt sig frá rekstri þeirra vegna of lítilla fjárframlaga ríkisins. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að féð sem sveitarfélögin þyrftu að leggja hjúkrunarheimilunum til væri tekið frá öðrum verkefnum.

Logi Einarsson og Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, spurðu ráðherra út í málefni hjúkrunarheimila í óundirbúnum fyrirspurnum í dag.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að núverandi ríkisstjórn hefði afgreitt fern fjárlög í valdatíð sinni en aldrei tryggt næg fjárframlög til reksturs hjúkrunarheimila. Hann sagði að afleiðingin af því sem hann kallaði skortstefnu ríkisstjórnarinnar væri sú að sveitarfélögin hefðu þurft að greiða milljarða á milljarða ofan til að tryggja reksturinn. „Þegar sveitarfélög leggja fé inn í þennan rekstur, sem þau eiga ekki að þurfa, eru þau einfaldlega að taka af öðrum málaflokkum, af börnum og unglingum og tómstundum eldri borgara. Við það verður ekki unað, hæstv. heilbrigðisráðherra.“

Kanna verði hvaða þjónustu sé borgað fyrir

Heilbrigðisráðherra lagði áherslu á starf nefndar sem hún skipaði á síðasta ári til að leggja mat á fjárhagslegan grunn hjúkrunarheimila. Hún sagðist orðin langeyg eftir niðurstöðunum en bjóst við að fá þær á næstu vikum. „Þessi vinna skiptir mjög miklu máli að því er varðar sameiginlegan skilning, ekki bara á því hver kostnaðurinn er við þjónustuna sem verið er að veita heldur ekki síður hver skilin eru milli annars vegar félagsþjónustu og hins vegar heilbrigðisþjónustu,“ sagði Svandís. „Það er nokkur einföldun sem hefur verið í umræðunni sem lýtur að því hverjir beri skyldur gagnvart sínum elstu íbúum í þessum efnum og það eru vonbrigði þegar sveitarfélög segja sig frá þjónustu sem lýtur að þeim hluta, sem er þjónusta við þeirra elstu borgara.“

Svandís sagði að hún líkt og Logi væri vinur ríkissjóðs. Hún sagði að ekki væri nóg að nefna einhverja tölu og ætlast til að hún yrði borguð. Þess í stað þyrfti að liggja fyrir greinargóð greining og grundvöllur að baki því sem ríkissjóður ætti að borga, ekki bara tala sem einhverjum dytti í hug.

Óvissa heimilisfólks og starfsfólks

Birgir lýsti áhyggjum af málaflokknum. Hann tók dæmi af rekstri hjúkrunarheimilis í Vestmannaeyjum. Bærinn sagði upp samningi sínum við Sjúkratryggingar um rekstur heimilisins í júní í fyrra. Síðan hafi liðið og beðið án þess að nokkrar upplýsingar fengjust um hver tæki við rekstrinum. Sjö mánuðum síðar hafi enginn lýst áhuga á að taka við rekstrinum. „Það er alveg ljóst, herra forseti, að þessi mikilvægi málaflokkur er í fullkominni óvissu og það bitnar ekki síst á heimilisfólkinu á þessum hjúkrunarheimilum og aðstandendum þeirra og þessu fólki er einfaldlega sýnd óvirðing.“

Birgir lýsti áhyggjum bæði af stöðu heimilisfólks á hjúkrunarheimilum og atvinnuöryggi starfsmanna þeirra.