Einn áfram í gæsluvarðhaldi - tveir í farbanni

23.02.2021 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenskur karlmaður, sem var handtekinn í tengslum við rannsókn lögreglu á morðinu í Rauðagerði, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 2. mars. Verjandi hans segir í samtali við fréttastofu að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hafi verið kærður til Landsréttar. Tveir menn, sem voru handteknir með honum í umfangsmiklum aðgerðum á Suðurlandi, hefur verið sleppt en eru í farbanni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu nú síðdegis þar sem þetta kemur fram. 

Mennirnir þrír voru handteknir á mánudagskvöldinu eftir morðið í Rauðagerði í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sérsveitar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurlandi.  Einn þeirra er íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri en hinir tveir eru erlendir ríkisborgarar á fertugsaldri. 

Íslendingurinn, sem hefur í fréttum RÚV verið sagður umsvifamikill í undirheimum, hefur nú verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald en hinum tveimur var sleppt.  Þeir hafa þó báðir verið úrskurðaðir í farbann til 9.mars. Gæsluvarðhaldið yfir Íslendinginum rennur út 2. mars.

Þar með eru sjö í haldi vegna málsins en gæsluvarðhald yfir fjórum rennur út á morgun. Ekki hefur náðst í lögregluna í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV