500.000 fórnarlamba COVID-19 minnst í Bandaríkjunum

epa09030505 US President Joseph Biden (L), First Lady Jill Biden (C-L), Vice President Kamala Harris (C-R) and Second Gentleman Doug Emhoff (R) hold a moment of silence and candle lighting ceremony on the South Portico of the White House for the 500,000 Americans who have died from the Covid pandemic in Washington, DC, USA, 22 February 2021.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Forseti og varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden og Kamala Harris, ásamt mökum sínum Jill Biden og Doug Emhoff, á minningarathöfn um fórnarlömb COVID-19 við Hvíta húsið  Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríska fánanum var flaggað í hálfa stöng við Hvíta húsið í Washington í dag, í minningu þeirra 500.000 Bandaríkjamanna sem dáið hafa úr COVID-19 frá því að fyrsta, þekkta fórnarlamb farsóttarinnar þar í landi lést í Kaliforníu fyrir rétt rúmlega ári síðan. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, gaf fyrirmæli um að flagga skyldi í hálfa stöng við allar opinberar stofnanir af þessu tilefni það sem eftir lifir vinnuvikunnar, eða fram til sólarlags á föstudag.

Klukkum Þjóðardómkirkjunnar í Washington var hringt fimm hundruð sinnum af þessu tilefni og Biden flutti ávarp, þar sem hann minntist hinna látnu og hvatti til sameiginlegs átaks bandarísku þjóðarinnar gegn þessum vágesti.

Fleiri Bandaríkjamenn hafa nú látist úr COVID-19 en féllu í báðum heimsstyrjöldunum og Víetnamstríðinu samanlagt. Fjórðungur staðfestra smita og fimmtungur allra staðfestra dauðsfalla af völdum COVID-19 hafa orðið í Bandaríkjunum, þar sem um fjögur prósent Jarðarbúa eiga heima.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV