Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Verjandi Gunnars segir manndráp af gáleysi auðsýnt

22.02.2021 - 17:11
Verjandi Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, Bjørn André Gulstad (til hægri) ásamt vopnasérfræðingum rannsóknarlögreglunnar Kripos. Gulstad er verjandi ásamt Brynjar Meling.
 Mynd: NRK
Brynjar Meling, annar verjanda Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, segir héraðsdóm hafa horft framhjá staðreyndum máls og farið á svig við lög með því að dæma hann til þrettán ára fangavistar fyrir að hafa orðið bróður sínum að bana í apríl 2019.

Frá þessu er greint á vef norska ríkisútvarpsins og haft eftir Katrine Holter doktor í refsirétti að nokkrum fyrri dómum hafi verið hnekkt á grundvelli þess að ekki hafi verið greint milli ásetningsbrots og gáleysis. 

„Það er alveg augljóst af staðreyndum máls og lýsingum á huglægri reynslu sakbornings að um manndráp af gáleysi er að ræða. Af einhverjum undarlegum ástæðum komust dómarar héraðsdóms að þeirri niðurstöðu að þetta hefði verið gert að yfirlögðu ráði“, segir Meling.

Hann hyggst notast við sömu sönnunargögn og var gert í héraði en hefur lagt mikla áherslu á að bera saman fyrri dóma í sambærilegum málum. „Við höfum að minnsta kosti fimm sambærileg mál þar sem bæði ákæruvaldið og dómstólar mátu að brot hafi verið framin af gáleysi.“

Aðspurður telur Meling að fordæmi séu fyrir fjögurra til sex ára dómi fyrir slík brot. 

Ásetningur eða gáleysi?

Katrine Holter, doktor í refsirétti, útskýrir hvernig glæpsamlegt athæfi geti að hluta verið ásetningur og að hluta vanræksla eða gáleysi. „Til dæmis er hægt að grýta mann viljandi en ætlunin þarf ekki að vera að bana honum,“ segir hún.

Holter segir Lögmannsréttinn standa frammi fyrir því að dæma Gunnar Jóhann á grundvelli lægsta stigs ásetnings, eða dolus eventualis á lagamáli og heldur áfram með samlíkinguna af grjótkastaranum.

„Sá sem kastaði getur álitið að dauði þess sem fyrir grjótinu verður sé möguleg en ekki líkleg afleiðing athæfisins. Eins getur hann hafa ákveðið að grýta þótt ljóst væri að bani hlytist af.“

Hún segir þetta hljóma flókið í eyrum leikmanna en þó megi hugga sig við að þetta flækist líka fyrir löglærðum. Hæstiréttur hafi oft gripið inn í og snúið við niðurstöðu mála af þessu tagi frá Lögmannsréttinum.

„Þegar morð er framið af ásetningi má gera ráð fyrir dauða með athæfinu en ekki eingöngu áhættu á andláti.“ Holter segist ekki vilja taka beina afstöðu til máls ákæruvaldsins gegn Gunnari. 

Málflutningur í áfrýjunarmáli Gunnars Jóhanns hófst fyrir Lög­manns­rétti Hålogalands í Tromsø klukkan 9 í morgun.

Gunnar neitaði þegar sök enda hefur hann ávallt haldið því fram að ásetningur hans hafi verið að hræða Gísla Þór Þórarinssyni með haglabyssunni.

Slysaskot sem hæfði Gísla í lærið hafi orðið til þess að honum hafi blætt út en Gunnar hafi haft byssuna hlaðna svo hann gæti hleypt af í vegg eða sófa til að skjóta bróður sínum skelk í bringu.