Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Traust á Alþingi að nálgast það sem var fyrir hrun

22.02.2021 - 20:47
Allir flokkar virðast komnir í kosningagírinn þrátt fyrir að tæpir sjö mánuðir séu nú til Alþingiskosninga, segir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur. Hann segir einkennandi í þinginu nú að þingmenn séu óvenjulega æstir að koma sér og sínum málum á framfæri.

Traustið hrundi eftir hrunið og Klausturmálið

Traust á Alþingi hefur aukist upp á síðkastið og mældist 34% í nýjustu könnun. „Þetta er gríðarlega áhugavert,“ segir Ólafur. Íslendingar hafi lengst af mælst meðal þjóða þeir sem treysta mest, ekki bara í stjórnmálum heldur á flestum sviðum þjóðlífsins. „Við höfum verið á pari með Norðurlöndunum hvað varðar þetta alveg fram að hruni.“

Fyrir hrun mældist traust til Alþingis gjarnan 30 - 40% jafnvel yfir 40% en strax eftir hrunið datt þetta traust niður í 10%. Frá 2013 hafi traust á Alþingi aukist aftur og var komið í 29% 2018. „Þá hins vegar kom Klausturmálið og traustið datt niður fyrir 20%,“ segir Ólafur. Nú sé það að nálgast fyrra horf og nemur Ólafur einnig aukinn áhuga fólks á að taka virkan þátt í stjórnmálum og að komast á þing. 

Illdeilur um uppstillingu fjara út fyrir kosningar

Ólafur telur að illdeilur um uppstillingu á lista innan stjórnmálaflokka fjari gjarnan út fyrir kosningar og það sé þá kostur því fyrr sem prófkjör eða uppstilling fer fram. „Ég veit ekki hvort það hafi verið strategískt hjá þeim en ég held að það hafi allavega verið hyggilegt,“ segir hann um snemmbúna uppstillingu Samfylkingar. Brotthvarf Ágústs Ólafs úr stjórnmálum hafi þannig ekki mikil áhrif á frammistöðu flokksins. Þá skipti brotthvarf Andrésar Inga og Rósu Bjarkar litlu fyrir VG. 

Hann segir að Guðrún Hafsteinsdóttir sem sækist eftir oddvitasæti fyrir Sjálfstæðisflokk í Suðurkjördæmi njóti góðs af því að Sjálfstæðismenn vantar konu í suðrinu og það gildi í raun almennt um Sjálfstæðisflokkinn. Aðeins er lægra hlutfall af konum á þingi hjá Miðflokknum.

Djörf ákvörðun hjá Ásmundi að fara til Reykjavíkur

Framsóknarflokkurinn hefur hefðbundið átt mjög erfitt uppdráttar í Reykjavíkurkjördæmunum og það gæti farið svo að þau Lilja og Ásmundur næðu ekki inn á þing.  „Það yrði auðvitað mikið áfall fyrir flokkinn,“ segir Ólafur. 

Þá virðast vera straumar milli Miðflokksins og Sjálfstæðisflokknum, segir Ólafur. Miðflokkurinn virðist aðallega vera að keppa um fylgi við Sjálfstæðismenn. Viðreisn og Píratar hafa mælst stöðug í könnunum en síðustu kannanir gefi til kynna að Viðreisn myndi bæta við sig jafnvel 2- 3 mönnum. Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkur og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hafa einnig boðað framboð í öllum kjördæmum. 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV