Tjaldurinn óvenju snemma á ferðinni til landsins

22.02.2021 - 13:28
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Það sem af er vetri hefur veður verið með mildasta móti sunnanlands. Hlýindin virðast hafa áhrif á farfugla. Í síðustu viku sást tjaldur í Kjósinni sem hafði vetursetu við Ermarsundseyjar

Á suðvesturhluta landsins hefur vetur konungur ekki verið tíður gestur ríkjandi það sem af er. Böðvar Þórisson og Sölvi Rúnar Vignisson hafa farið um fjörur Suður- og Vesturlands síðustu vikur og talið vaðfugla og leitað að merktum tjöldum en um þriðjugur tjalda hér á landi hafa hér vetursetu. 

Í Kjósinni sáu þeir hins vegar til tjalds sem er merktur og vitað er að hafði vetursetu á Ermarsundseyjum. Böðvar Þórisson er verkefnastjóri rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hann segir það klárt mál að tjaldurinn hafi ekki haft vetursetu hér á landi. 

„Já já, hann sást seinast 4. febrúar á Ermasundseyjum. Búinn að sást þar í allan vetur. Það eru til myndir af honum þar,“ segir Böðvar.

Hann segir að tjaldur hafi ekki komið til landsins svona snemma áður.

„Eldra metið var 28.febrúar og það er að sjá fjölgun af tjöldum upp úr mánaðamótum febrúar mars, þá er búist við að fuglarnir séu að koma,“ 

Eru einhverjar skýringar á því af hverju þeir koma svona snemma?

Nei við höfum enga skýringu á því. Það gæti verið að það hafi verið hagstæðir vindar,“ segir Böðvar.

Þá hafa tveir fullorðnislegir hafernir sést á flugi í uppsveitum Árnessýslu síðustu daga. Hafernir sem lengi vel hafa aðallega sést við Breiðafjörð og á Vesturlandi sjást orðið víðar og tíðar um landið sunnan- og norðanvert. Undanfarin ár hafa verið haförnum hagstæð. Síðustu varpár hafa gengið mjög vel í stofninum sem fer sífellt stækkandi og varpstöðum fjölgar. Nú eru um 300 ernir hér á landi, en stofninn taldi innan við 20 fugla fyrir um hálfri öld.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV