Tilslakanir í skólum og tillögur um íþróttaviðburði

22.02.2021 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Tilslakanir á sóttvarnaráðstöfunum í menntastofnunum og skipulögðum menningarviðburðum eru meðal þess sem er að finna í tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra. Þar er líka að finna ákveðnar tillögur um íþróttaviðburði. Þórólfur segir hins vegar að fara verði varlega með rýmkanir á vínveitingastöðum og í óopinberum veislum eins og fermingaveislum. Hann segir vel hugsanlegt að hægt verði að halda hátíðir næsta sumar ólíkt því sem gerðist síðasta sumar.

Þetta er meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Þórólfur sagðist ekki vilja fara mikið út í það hvaða tillögur hann leggur fyrir ráðherra. Hann gaf þó vísbendingar um hvað kynni að vera að finna þar. 

Þórólfur fór í upphafi yfir þróunina í faraldrinum bæði innanlands og á landamærunum. Ekki hefur greinst smit utan sóttkvíar síðan 1. febrúar og tvö í sóttkví í síðustu viku. Áfram greinast um eitt til eitt og hálft prósent farþega sem hingað koma með virkt COVID-19 smit.

Góðar forsendur til tilslakana

„Það hafa skapast núna góðar forsendur til að slaka enn frekar á sóttvarnaráðstöfunum hér innanlands.“ sagði Þórólfur. Hann gerir ráð fyrir að heilbrigðisráðherra kunni að tilkynna hverjar nýjar reglur verða þegar eftir ríkisstjórnarfund á morgun. „Eins og áður mun örugglega einhverjum þykja að það sé farið of bratt meðan öðrum þykir vafalaust alltof hægt farið. Ég tel að við getum farið í töluverðar tilslakanir núna í ljósi þess árangurs sem við höfum náð. Við verðum að gera það varlega.“

Vill fara varlega í tilslakarnir á krám

Þórólfur sagði að fara verði mjög varlega í afléttingu á krám og að þar verði varlegustu afléttingarnar ef einhverjar verða í þessum hluta. Hann sagði að hafa yrði í huga að síðasta bylgja breiddist út frá krám.

Ekki verður ráðist í tilslökun á grímuskyldu núna. Þórólfur sagði að það kæmi að því að grímuskylda yrði aflögð en kvaðst ekki vita hvenær það yrði. Að því loknu gæti fólk sjálft ákveðið hvort það vildi nota grímur áfram eða ekki.

Ekki ólíklegt að hátíðir verði haldnar í sumar

Mér finnst það ekkert ólíklegt, sagði Þórólfur aðspurður um hvort hægt yrði að halda hátíðir í sumar líkt og á árum áður, en þær féllu flestar niður í fyrra. Hann sagði að það gæti verið mögulegt ef vel gengur og búið verði að bólusetja þorra þjóðarinnar í lok júní, auk þess sem góð stjórn náist á landamærunum. Það byggi þó á því að fólk haldi áfram að passa sig þótt dregið verði úr sóttvarnatakmörkunum. „Þetta þýðir ekki að við getum lifað hinu villta góða lífi.“

Rætt um fermingar og íþróttaviðburði

Margir eru hugsi yfir hvernig fermingarhaldi og fermingarveislum verður háttað í ár, sérstaklega þar sem mörg ungmenni sem hugðust fermast í fyrra hafa sum hver ekki enn fermst. Aðspurður um hvort hægt verði að halda fjölmennar fermingarveislur sagði Þórólfur: „Mínar hugmyndir eru að fara varlega í því, frekar að slaka á fjöldatakmörkunum á skipulögðum viðburðum eins og listviðburðum þar sem fólk situr í númeruðum sætum heldur en í einhverjum veislum. Þetta á bara eftir að koma í ljós.“

Umdeilt hefur verið að engir áhorfendur eru leyfðir á íþróttaviðburðum. Aðspurður hvort þeir féllu undir Þórólfs um slakanir á skipulögðum viðburðum svaraði Þórólfur: „Það eru ákveðnar tillögur þar að lútandi frá mér.“ Hann fór þó ekki nánar út í hvaða tillögur það væru, frekar en aðrar.