Skipulögð brotastarfsemi alltaf að verða alþjóðlegri

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra og tengslafulltrúi Europol, segir að skipulögð brotastarfsemi sé alltaf að verða alþjóðlegri. Hann kemur aftur til starfa hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í vor eftir störf fyrir Europol í Hollandi undanfarin þrjú ár. Hann er reynslunni ríkari eftir að hafa fengið betri innsýn inn í skipulagða brotastarfsemi og hvernig samskipti þurfi til að takast á við hana.

Reyna að auka samstarf yfir landamæri

„Starfið snýst um að smyrja svolítið samskiptin,“ sagði Grímur í Síðdegisútvarpinu í dag. „Þegar það er þörf hjá íslensku lögreglunni um að vera í samskiptum við lögreglu í öðrum löndum þá kem ég þar að og öfugt.“

„Skipulögð brotastarfsemi er alltaf að verða meira og meira alþjóðleg ef það má orða það þannig og fer yfir landamæri. Það sem lögreglan er að reyna að gera er að reyna að vinna saman yfir landamæri innan þeirra marka sem lagaumhverfi í hverju landi leyfir.“ 

Ísland tíu til tuttugu árum á eftir

Grímur segir það ágæta þumalputtareglu að það gerist allt 10- 20 árum seinna á Íslandi en annars staðar í Evrópu og á Norðurlöndunum. „Við horfum með mjög svipuðum hætti til brotastarfsemi á Íslandi eins og annars staðar en auðvitað er það hjá lítilli þjóð með öðrum hætti og færri skiptin sem slíkt gerist. Við höfum blessunarlega verið laus við mikla notkun á skotvopnum og sprengingum eins og hefur verið á Norðurlöndum undanfarin ár.“

Hann segir tímann í Hollandi hafa verið lærdómsríkan og gefandi og hlakkar til að taka til starfa á ný hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.