Red Barnett - Astronauts

Mynd: Hans Alan og Ólöf Erla / Astronauts

Red Barnett - Astronauts

22.02.2021 - 15:35

Höfundar

Red Barnett gaf út plötuna Astronauts 17.október. Platan er önnur í röðinni en frumraunin, Shine, kom út 2015 og hreppti Íslensku tónlistarverðlaunin það ár sem besta platan í opnum flokki.

Red Barnett byrjaði sem hugarfóstur Haraldar V. Sveinbjörnssonar þegar hann stundaði nám í klassískum tónsmíðum við Háskólann í Lundi í Svíþjóð í byrjun aldarinnar. Haraldur er kannski helst þekktur fyrir að standa bak við tjöldin í tónlistarbransanum, en hann hefur samið, útsett og flutt tónlist með öllu helstu tónlistarfólki landsins og víðar. Haraldur var einn helsti lagahöfundur og gítarleikari hinnar fornfrægu gruggsveitar Dead Sea Apple, var í Mönnum ársins með Sváfni Sig í brúnni, og bassaleikari hljómsveitarinnar Buff, auk þess að hafa starfað með Dúndurfréttum í gegnum tíðina. Auk þess hefur hann verið iðinn við strengja- og hljómsveitarútsetningar, en má þar helst nefna tónleika Skálmaldar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 2013 og 2018.

Astronauts er önnur plata Red Barnett, en er um margt ólík þeirri fyrri þar sem Haraldur samdi og flutti lögin nánast einn í eins konar persónulegu singer/songwriter-verki. Á þeirri nýju hefur Red Barnett sexfaldast og einyrkinn orðinn að hljómsveit. Tónlistin á plötunni ber þess greinilega merki þó vissulega beri Haraldur áfram hitann og þungann af lagasmíðum plötunnar.

Þeir félagar söðluðu um og héldu til Wales í hið fornfræga hljóðver í Rockfield, þar sem margir helstu risar dægurtónlistarinnar hafa tekið upp. Stúdíóið er einna helst þekkt fyrir að hýsa Queen þegar þeir tóku upp Bohemian Rhapsody, og ekki síður fyrir skrautlega heimsókn Oasis þegar þeir unnu að gerð plötunnar What’s the Story Morning Glory.

Astronauts er eins konar næstum-því-konsept-plata; hún byrjar á barnslegri þrá okkar í hið óþekkta sem yfir tíma þróast svo í heimþrá, eftirsjá, söknuð og skort á nánd sem plagar okkur í hinum stóra nútímaheimi, sem nú er undirlagður er af samfélagsmiðlum og sjálfsspeglun.

Sextettinn Red Barnett skipa í dag:

  • Ásgeir Ásgeirsson á gítara og ýmis strengjahljóðfæri.
  • Daði Birgisson á hljómborð og orgel.
  • Diddi Guðnason á slagverk, pákur, víbrafónn og marimba.
  • Finnur Beck á bassi.
  • Hannes H. Friðbjarnarson á trommur.
  • Haraldur V. Sveinbjörnsson syngur auk þess að spila á gítarar, hljómborð ofl.

Auk þeirra koma fram á plötunni Sigrún Sif Jóelsdóttir söngkona, saxafónleikararnir Steinar Sigurðsson og Óskar Guðjónsson, kammerkórinn Hljómeyki og Strengjakvartettinn Lýra.

Upptökur fóru fram í Rockfield Studios í Wales og í Reykjavík árin 2018-2020 og var stjórnað af Haraldi V. Sveinbjörnssyni og Silla Geirdal.

Astonauts er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð í heild sinni erftir 10-fréttir í kvöld mánudag auk þess að vera aðgengileg í spilara. Þeir Haraldur V. Sveinbjörnsson og Hannes H. Friðbjarnarson mættu fyrir hönd sveitarinnar í hljóðver og fóru yfir tilurð laganna.