Listhugleiðsla í beinni frá Listasafni Einars Jónssonar

Mynd: Listasafn Einars Jónssonar / Listasafn Einars Jónssonar

Listhugleiðsla í beinni frá Listasafni Einars Jónssonar

22.02.2021 - 13:00

Höfundar

Listasafn Einars Jónssonar hefur víkkað út starfsemi sína og býður nú upp á listhugleiðslu einu sinni í viku. Nýlega fékk safnið styrk úr Lýðheilsusjóði til að vera með beina útsendingu frá listhugleiðslunni og verður fyrsta útsendingin 9. mars. Rætt var við Höllu Margréti Jóhannesdóttur, safnvörð og jógakennara, í Samfélaginu á Rás eitt.

Listhugleiðsla var fyrst haldin í Listasafni Einars Jónssonar í febrúar í fyrra og hefur fengið góðar viðtökur. Hún er haldin einu sinni í viku, í hádeginu á hverjum þriðjudegi. Þátttakendur hafa verið á aldrinum 16 og upp í 96 ára. 

Eitt listaverk er tekið fyrir í hverjum listhugleiðslutíma. Hver tími byrjar á því að þátttakendur skoða listaverkið í þögn í tíu mínútur. Síðan er hugleiðsla í 15 mínútur og eftir það segir Halla Margrét þátttakendum frá verkinu. 

Halla Margrét valdi, fyrir okkur, höggmyndina Útlagar sem Einar Jónsson gerði árið 1901. Hún sýnir mann sem ber konu sína á bakinu og hann heldur á barni á handleggnum. Hundurinn hans fylgir honum. Konan lítur út fyrir að vera látin. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bergljót Baldursdóttir
Halla Margrét Jóhannesdóttir, safnvörður og jógakennari við höggmyndina Útlagar eftir Einar Jónsson

Fólk fer oft hratt í gegnum listasöfn

Hugmyndina fékk Halla Margrét þegar hún tók eftir því að fólk fór stundum heldur hratt í gegnum listasafnið og virtist ekki dvelja við verkin ekki síst ferðamenn sem oft voru með lista yfir það sem þeir ætluðu að komast yfir. Sjálf kemur hún daglega á safnið og hefur gert í tvö og hálft ár og á hverjum einasta degi sér hún eitthvað nýtt í verkum Einars Jónssonar. Henni fannst því sorglegt að vita til þess að fólk væri að missa af upplifunum með listaverkunum.  

Halla Margrét er einnig jógakennari og fékk þá hugmynd að tengja jóga, þessa andlegu og líkamlegu ræktun, við listina. Hugmyndina að listhugleiðslu í safninu fékk hún svo eftir hugarflugsfund með Hildi Örnu samstarfskonu sinni. 

Víða erlendis hafa söfn verið að víkka út hlutverk sitt á þennan hátt, segir Halla Margrét. Moma í New York hefur til dæmis boðið upp á jóga á morgnana sem var vel sótt áður en farsóttin skall á. Einnig hafa söfn í Bretlandi og víðar boðið upp á leiðsögn undir merkjum núvitundar. 

List og hugleiðsla 

Halla Margrét segir að þegar fólk nýtur listar kvikni innra með því einhvers konar samtal eða samskipti við listaverkið. Fólk finni ró og frið ekki ósvipað því sem gerist í hugleiðslu sem gengur mikið út á að kyrra hugann. „Við lifum í samfélagi þar sem áreiti á okkur er gífurlegt […]  Við erum á yfirsnúningi og þá verður oft það sem við tökum út ekki eins gott eins og ef við gætum verið að vinna á þeim hraða sem okkur er eiginlegt og þá er ég að tala um þessa hugrænu úrvinnslu.“  

Ef fólk skoðar höggmyndina Útlagar er ljóst að hún vekur ekki endilega ró og frið innra með fólki. Línurnar í verkinu dragi fólk að andliti útlagans. Halla Margrét minnir á að lífsbarátta þess sem hefur verið gerður útlægur og býr á hálendinu geti verið hörð. Útlaginn ber látna konu sína á bakinu. „Konan er líflaus en fólk spyr líka „er hún ekki bara sofandi?“ segir Halla Margrét. Ef betur er að gáð má sjá á vísbendingum í verkinu að konan er dáin. Sjá má að útlaginn er að ganga niður í móti og það gefi til kynna að hann sé á leið til byggða, aftur í samfélag manna.  

Það er bara eins og það er 

„Hann vill grafa konuna í kirkjugarði. Hann vill ekki grafa hana uppi á hálendinu því að sögurnar voru þær að sál þín yrði óróleg ef líkaminn lægi ekki í vígðri mold. Það væri hræðilegt fyrir hana og líka fyrir hann að hafa vofu hennar allt um kring.“ Og einnig má sjá að  göngustafurinn hans er ekki stafur heldur skófla. „Já hvað er hann að gera með skóflu? Jú, hann ætlar að gafa hana.“ Ef horft er í andlit útlagans megi sjá margt. Hann er ákveðinn, áhyggjufullur en þar er líka sorg.  Verkið vekur þannig ekki bara frið og ró heldur líka áhyggjur og sorg. „Er þá gott að verða sorgmæddur í listhugleiðslunni? Þetta er frábær spurning vegna þess að þegar við erum búin að skoða verkið og auðvitað verður þú fyrir áhrifum og svo sestu og hugleiðir. Og ég segi alltaf í hugleiðslunni, í þögninni, þá kann að vera að þessi mynd birtist innra með þér og það er allt í lagi. Það er ekkert að því. Taktu eftir því sem gerist innra með þér og ef þessi mynd birtist þér leyfðu þér að taka eftir en þú hefur líka alltaf val um að sleppa taki. Og leiðin til að sleppa taki á hugsun, tilfinningu, verk eða hverju sem er, er að þú fylgist með andardrættinum.  Þú skammar þig aldrei, það er bara eins og það er.   

Það má sem sagt verða sorgmæddur í hugleiðslunni? Já við erum ekki að reyna að breyta neinu. Hugleiðsla er tækifæri fyrir þig til að vera með þér eins og þú ert og leyfa eðli þess sem er; sorgar, gleði; eðli þess sem er að vera eins og það er.“

Styrkur úr Lýðheilsusjóði 

Listasafn Einars Jónssonar fékk nýlega styrk úr Lýðheilsusjóði til að vera með listhugleiðslu í beinni útsendingu á netinu. Fyrsta beina útsendingin verður 9. mars í hádeginu klukkan 12:10 og þá verður listaverkið Alda aldanna tekið fyrir. 

Halla Margrét segir að tvisvar sinnum áður hafi listhugleiðslan verið send út á netinu meðan á kófinu stóð. „Við fundum fyrir því að fólk sem ekki átti heimangengt var svo þakklátt. Og það er þannig með þetta hús að hér eru tröppur og það er erfitt fyrir marga að komast hingað inn hreinlega. Þannig að við buðum upp á þetta tvisvar sinnum og fengum svo mikið þakklæti fyrir og við náðum til fleiri, náðum til fólks sem ekki er á höfuðborgarsvæðinu. Við náðum jafnvel til fólks sem er erlendis sem vill eiga tenginguna við Ísland, við íslenska list og íslenska tungu.“   

„Það er gaman að segja frá því að það hafa komið hópar sem hafa beðið um listhugleiðslu. Það var til dæmis par sem var að fara að gifta sig og þau vildu gera eitthvað rólegt. Það var ekki steggjun eða gæsun beint en þó vildu þau hitta vini sína áður en þau giftu sig og komu hingað og buðu vinum sínum upp á listhugleiðslu. Þannig að það eru alla vega möguleikar í boði“