Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Læknir hættur á HSS vegna gruns um alvarleg mistök

Úr umfjöllun Kveiks um offituaðgerðir.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja harmar þann atburð sem er nú til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um að röð alvarlegra mistaka læknis sem starfaði hjá HSS hafi leitt til andláts, mögulega fleiri en eins.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sendi frá sér tilkynningu í dag en Stöð 2 greindi frá málinu í kvöldfréttum.

Grunur um að læknir hafi sent fólk á líknandi meðferð að óþörfu

18. febrúar skilaði Embætti Landlæknis áliti til stofnunarinnar um að þjónustu við sjúkling sem lést á sjúkradeild hennar 2019 hafi verið verulega ábótavant og ekki í samræmi við fagleg viðmið og viðurkennt verklag.

Í frétt Vísis segir að athugasemdir um störf læknisins hafi fyrst borist þegar kona á áttræðisaldri lést. Fjölskylda konunnar gerði þá verulegar athugasemdir við störf læknisins og lék þá grunur á að læknirinn hefði sent fólk á líknandi meðferð að óþörfu.

Framkvæmdastjórn harmar atburðinn

Framkvæmdastjórn HSS segir að sá læknir sem bar ábyrgð á meðferðinni sem sjúklingurinn fékk hafi verið settur í leyfi eftir að álitið barst og hafi þá látið af störfum. Landlæknisembættið hefur haft störf tiltekins læknis til skoðunar frá því í nóvember 2019. Stofnunin vill ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu samkvæmt yfirlýsingunni vegna yfirstandandi lögreglurannsóknar.

Fjölnir Freyr Guðmundsson er framkvæmdastjóri lækninga hjá HSS, Alma María Rögnvaldsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar og Elís Reynarsson er framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar.

Yfirlýsing frá framkvæmdastjórn HSS:

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) barst 18. þessa mánaðar álit frá Embætti landlæknis þar sem niðurstaða var sú að þjónustu stofnunarinnar við sjúkling sem lést á sjúkradeild síðla árs 2019 hafi verið verulega ábótavant og ekki í samræmi við fagleg viðmið og viðurkennt verklag.

Framkvæmdastjórn HSS lítur þessa niðurstöðu mjög alvarlegum augum og munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig. Við hörmum atburðinn og hugur okkar er hjá aðstandendum. 

Eftir að málið kom upp var strax settur enn meiri kraftur í að bæta verkferla sem snúa að utanumhaldi og eftirfylgni með skjólstæðingum heilbrigðisstofnunarinnar. 

Læknirinn sem bar ábyrgð á meðferðinni var settur í leyfi og lét í kjölfarið af störfum við stofnunina. 

Jafnframt vísaði HSS umræddu máli til lögreglu eins og lög gera ráð fyrir. Af þeim sökum getur stofnunin ekki tjáð sig frekar um málið að svo stöddu.