Hljómsveitin tilkynnti um ákvörðun sína með átta mínútna myndbandi sem kallast Epilogue, eða eftirmáli. Myndbandið er brot úr myndinni Electroma sem kom út árið 2006. Fjölmiðlafulltrúi Daft Punk hefur staðfest tíðindin en engin ástæða er gefin upp fyrir ákvörðuninni.
Thomas Bangalter og Guy-Manuel de Homem-Christo stofnuðu Daft Punk í París árið 1993 og slógu í gegn með plötunni Homework árið 1997. Þegar platan Discovery kom út árið 2001 komu þeir ávallt fram klæddir sem vélmenni en útlit og öll ímynd sveitarinnar vakti mikla athygli.
Síðasta breiðskífa Daft Punk var Random Access Memories sem kom út árið 2013. Sú plata innihélt stórsmellinn Get Lucky sem er eitt vinsælasta lag seinni ára. Lagið hlaut tvenn Grammy-verðlaun og platan hlaut þrenn Grammy-verðlaun, meðal annars sem besta plata ársins.