Grótta og Valur með örugga sigra

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Grótta og Valur með örugga sigra

22.02.2021 - 21:37
Tveir leikir fóru fram í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. Grótta náði góðum úrslitum á útivelli gegn Selfossi þegar liðið vann með sex marka mun.

Grótta sem hafði fyrir leikinn unnið 2 af fyrstu 10 leikjum tímabilsins byrjaði leikinn vel. Jafnræði var með liðunum fyrst um sinn en í stöðunni 7-7 kom góður 3-0 kafli hjá Gróttu og þá forystu lét liðið aldrei af hendi. Þvert á móti bætti það í og vann að lokum 26-20.

Á Hlíðarenda fór svo fram leikur Vals og Aftureldingar. Valur mætti töluvert betur stemmt til leiks og fór illa með Mosfellinga á fyrstu mínútum leiksins og Valur leiddi í hálfleik með 12 marka mun. Aftureldingu tókst að klóra aðeins í bakkann í síðari hálfleik en lokatölur 30-21 og öruggur sigur Vals staðreynd.