Freyr við stýrið í grátlegu tapi Al Arabi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Freyr við stýrið í grátlegu tapi Al Arabi

22.02.2021 - 18:33
Freyr Alexandersson fyrrum aðstoðarlandsliðsþjálfari A-landsliðs Íslands í knattspyrnu var ekki langt frá því að ná í stigin þrjú gegn toppliði úrvalsdeildarinnar í Katar. Lærisveinar hans og Heimis Hallgrímssonar í Al Arabi mættu þá Al Sadd á heimavelli síðarnefnda liðsins.

Heimir Hallgrímsson gat ekki stýrt liði Al Arabi í dag vegna þess að hann greindist með kórónuveiruna í síðustu viku. Freyr tók því við stjórnartaumunum um stundarsakir í fjarveru Heimis en hann er nýráðinn aðstoðarþjálfari félagsins. 

Al Arabi náði í tvígang forystunni í leiknum en það dugði þó ekki til og loka niðurstaðan 3-2 tap gegn lærisveinum Xavi, fyrrum miðjumanns spænska landsliðsins og Barcelona. Santi Cazorla skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma.

Aron Einar Gunnarsson er sem stendur eini Íslendingurinn í herbúðum liðsins en hann sat á varamannabekknum í dag.