Icelandair, ólíkt mörgum öðrum flugfélögum, rekur sína eigin þjálfunaraðstöðu með flughermum fyrir þær flugvélategundir sem félagið notar og í venjulegu árferði eru hermarnir í stöðugri notkun, annars vegar af Icelandair og hins vegar af ýmsum erlendum flugfélögum.
„Það er ekkert normalt við 2020, en í normal árferði eru það um 30% af notkun flughermanna sem eru erlendir aðilar, segir Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair.“
Og þeir þá í notkun meira og minna allan sólarhringinn?
„Já, þeir eru í notkun alveg upp undir 18 klukkustundir á sólarhring.“
Eins og gefur að skilja er ástandið öðruvísi núna þegar ferðamennska og flug liggur að miklu leyti niðri í heiminum. Flugmálayfirvöld víða hafa veitt heimild til að lengra líði á milli þjálfunar flugmanna í flughermum í ljósi stöðunnar. Engu að síður er staðan sú að um 60% tímans í flughermum Icelandair er nýttur af erlendum flugfélögum. Vegna reglna um sóttkví á landamærum hafa sum flugfélög gripið til þess ráðs að senda flugmenn hingað í vélum á eigin vegum, þannig að þeir fara þá í vinnusóttkví hér. Flug í hermum er nánast eins og að fljúga í raunveruleikanum segja þeir sem til þekkja.
„Ég myndi segja það,“ segir Kári Kárason þjálfunarflugstjóri. „Nú er ég búinn að vinna í flughermum í fimmtán ár og þetta er ansi nálægt því að vera raunveruleikinn. Það er helst á jörðinni sem þetta er örlítið öðruvísi en þegar maður er komin í loftið og farinn að berjast við þessar bilanir sem við erum að æfa okkur í þá er þetta nákvæmlega eins og flugvélin.“
Í raun má segja að nýtingin á flughermunum, bæði af flugmönnum Icelandair og frá erlendum félögum verði ein fyrsta vísbendingin um að ferðaþjónusta sé að taka við sér í heiminum á ný, því áður en það gerist þarf að þjálfa fólkið.