Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Daft Punk: „Við höfum ekkert á móti persónudýrkun“

Mynd: Kastljós / RÚV

Daft Punk: „Við höfum ekkert á móti persónudýrkun“

22.02.2021 - 16:57

Höfundar

Rafdúettinn Daft Punk veitti afar sjaldan viðtöl meðan hann starfaði. Árið 2006 tókst þó að lokka þá Thomas Bangalter og Guy-Manuel de Homem-Christo í viðtal í Kastljósi. Með einu skilyrði þó - að þeir fengju að hylja andlit sín.

Daft Punk hafa tilkynnt að þeir séu hættir störfum. Á 28 ára ferli veittu þeir sjaldan viðtöl en í þau fáu skipti sem þeir gerðu það huldu þeir andlit sín undir rammgerðum vélmennahjálmum. Þegar þeir veittu viðtal í Kastljósi á RÚV árið 2006, í tilefni af sýningu kvikmyndarinnar Electroma á RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, klæddust þeir í stað hjálmanna svörtum hauspokum.

„Ég held að það hafi snúist upphaflega um að nálgast hlutina á annan hátt við sköpunina og búa þannig til öðruvísi heim,“ svaraði Thomas Bangalter þegar spurt var hvers vegna þeir vildu hylja andlit sín. „Við fórum að nota myndir af vélmennum, okkur þótti áhugavert að skilja að hina áþreifanlegu mynd frá sköpuninni sjálfri og því vildum við fara öðruvísi að. Og einnig þótti okkur forvitnilegt að halda í nafnleysið.“

Þeir tóku undir að það væri undarlegt að klæðast hauspokum í viðtalinu. „En þetta er í fyrsta skiptið. Og hugmyndin er ekki okkar heldur er hún komin frá þér,“ sögðu þeir við Ragnhildi Steinunni sem tók viðtalið. „En þetta er í fyrsta skiptið og líklega það síðasta að við mætum svona klæddir í viðtal.“

Þeir sögðu ástæðuna fyrir því að þeir vildu hylja andlit sín ekki endilega snúast um andúð á persónudýrkun. „En við vildum eiga þann kost að vilja vera frægir eða ekki. Í dag snýst allt um að andlit manns sjáist í sjónvarpinu og þetta er dæmi um það. Kannski snúast draumar okkar ekki um það. Þetta snýst líka um muninn á skáldskap og veruleika.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Hljómsveitin Daft Punk hætt