Áætla að öllum helstu takmörkunum verði aflétt í júní

22.02.2021 - 16:34
Britain's Prime Minster Boris Johnson (L) departs his official residence at 10 Downing Street to attend Prime Ministers Questions at the Houses of Parliament in London, Britain, 10 February 2021. EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: NEIL HALL - EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, kynnti nýja áætlun um afléttingu takmarkana þar í landi vegna COVID-19 faraldursins í beinni útsendingu á þinginu síðdegis. Fyrsta skrefið er að opna alla skóla og leyfa frístundastarfsemi og íþróttaiðkun barna sem tengist skólunum.

Þessar afléttingar verða 8. mars en þá mega einnig tveir hittast utandyra í almenningsgörðum. Johnson segir þessi fyrstu skref varfærnisleg en jafnframt óafturkræf. Forsætisráðherrann tilkynnti í gær að stefnt sé að því að bólusetja alla fullorðna fyrir lok júlí og ítrekaði það í ræðu sinni í dag, en yfir 17 milljónir hafa þegar fengið fyrsta skammt bóluefnis í Bretlandi, og nærri 600 þúsund hafa fengið báða skammtana. Hann sagði væntanlegar afléttingar hverju sinni taka mið af smittölum en ekki dagsetningum.

Ræktin og verslanir opna í apríl

Þann 12. apríl mega verslanir sem selja ekki nauðsynjavörur, söfn og opinberar byggingar og garðar opna á ný sem og líkamsræktarstöðvar og sundlaugar. Þá mega 30 koma saman í jarðarför en 15 í brúðkaupi. 

Þriðja skrefið verður tekið 17. maí þegar fólk kvikmyndahús, hótel og írþóttahallir eiga að opna. Allt að 10 þúsund manns mega koma saman í stærstu höllunum eða 1/4 af leyfilegum fjölda. Þá mega 30 koma saman í brúðkaupi. 

Loks er ráðgert að aflétta öllum takmörkunum meðal annars með opnun skemmtistaða þann 21. júní og vonast er til að þá verði gestatakmörkunum í brúðkaupum og jarðarförum einnig aflétt.