Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þurfa að hafa auðan klefa á milli sakborninga

21.02.2021 - 18:37
Aldrei hafa jafn margir verið í einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði frá því það var tekið í notkun. Ástæðan er rannsókn á morðinu í Rauðagerði. 28 gæsluvarðhaldsklefar eru í fangelsinu og nota þarf átján af þeim undir málið. Hafa þarf auðan klefa á milli þar sem allir sakborningarnir níu eru í einangrun.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að rannsókn málsins miði vel. Yfirheyrslur yfir sakborningunum hafa farið fram um helgina og munu standa fram á kvöld.

Meðal þess sem lögreglan rannsakar er hvort morðið tengist mögulega deilum tveggja manna, morðingjans og hins látna eða deilum milli einhverra hópa.  Lögreglan hefur áður sagt að hún telji sig hafa skotmanninn í haldi. 

Alls eru níu í gæsluvarðhaldi og einangrun í tengslum við rannsókn á morðinu. Aldrei hafa jafn margir verið í einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði frá því að fangelsið var tekið í notkun.

28 gæsluvarðhaldsklefar eru í fangelsinu en þar sem mennirnir eru allir í einangrun þarf að hafa einn klefa á milli. Því fara átján gæsluvarðhaldsklefar undir þetta eina mál.