Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráðherra kominn með minnisblað frá Þórólfi

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, er búinn að senda heilbrigðisráðherra minnisblað með tillögum sínum um tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum. Þetta staðfestir hann í svari til fréttastofu. Búast má við að ráðherra kynni minnisblaðið og ákvörðun sína um mögulegar tilslakanir á fundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudag.

Hertar aðgerðir á landamærunum tóku gildi á föstudag og Þórólfur hefur sagt þær væru ein forsenda þess að hægt væri að slaka á aðgerðum innanlands.

Fá smit hafa greinst í febrúar og þeir sem hafa sýkst af kórónuveirunni hafa allir verið í sóttkví.

Þórólfur ítrekaði þó þá möntru sína á upplýsingafundinum á fimmtudag að fara yrði hægt í að slaka á öllum aðgerðum.  Hann sagði þó að eitt af því síðasta sem hann myndi mæla með væri að fólk felldi grímuna.

Venjan hefur verið sú að Þórólfur sendir ráðherra minnisblað með tillögum sínum. Ráðherra kynnir minnisblaðið yfirleitt á ríkisstjórnarfundi og tillögu sína að reglugerð sem í framhaldinu er gerð opinber.

Næsti fundur ríkisstjórnarinnar er á þriðjudag. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV