Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Nýtt afbrigði fuglaflensu smitast í menn

21.02.2021 - 03:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Rússnesk yfirvöld greindu í gær frá því að sjö starfsmenn alifuglabús hafi smitast af flensuveirunni H5N8 af fuglum. Þetta eru fyrstu tilfellin sem smitast úr fiðurfé í menn. Fréttastofa BBC hefur eftir Önnu Popova, yfirmanni neytendasamtaka Rússlands, að öllum sjö sem smituðust heilsist vel.

Ekkert bendir til þess að sjúkdómurinn hafi smitast manna á milli að hennar sögn. Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hefur verið gert viðvart.

H5N8 fuglaflensufaraldurinn hófst í Rússlandi í desember. Popova segir mikilvægt að tekist hafi að greina þetta afbrigði flesunnar áður en það nær að smitast á milli manna. Það gefi heimsbyggðinni tíma til þess að búa sig undir mögulegar stökkbreytingar og bregðast við þeim. 

Aðrar tegundir flensu hafa smitast úr fuglum yfir í menn og breiðst út á meðal manna. Þetta er í fyrsta sinn sem greint er frá H5N8 smiti úr fuglum í menn.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV