
Mótmæli í Barselóna, sjötta kvöldið í röð
Nokkrir grímuklæddir mótmælendur köstuðu flöskum, hvellsprengjum og öðru lauslegu að lögreglumönnum sem stóðu vörð um höfuðstöðvar lögreglunnar í borginni, en þar kom ekki til átaka mótmælenda og lögreglu sem orð er á gerandi. Á göngu sinni frá aðallestarstöð borgarinnar kröfðust nokkur hundruð manns frelsis fyrir Pablo Hasél og nokkrir úr þeirra hópi hrófluðu upp götuvígjum á Römblunni, helstu breiðgötu borgarinnar, grýttu lögreglu og brutu rúður í nærliggjandi verslunum.
Um 100 manns hafa verið handtekin í mótmælum í Barselóna og víðar eftir að Hasél var fluttur í varðhald á þriðjudag, þar af fimm í kvöld. Hæstiréttur staðfesti nýverið níu mánaða fangelsisdóm yfir þessum orðhvata, 32 ára rappara. Mótmælendur, stór hópur úr fremstu röð spænskra listamanna og mannréttindasamtökin Amnesty International krefjast frelsunar Haséls og segja dóminn alvarlega aðför að tjáningarfrelsi á Spáni.