Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mótmæli í Barselóna, sjötta kvöldið í röð

21.02.2021 - 23:56
epa09028789 Protesters riot during a march against the imprisonment of Spanish rapper Pau Rivadulla Duro A.K.A 'Pablo Hasel' in Barcelona, Spain, 21 February 2021. A total of 102 people were arrested in Barcelona and 82 police officers were injured in the last five nights of riots in protests held to condemn the imprisonment of Pablo Hasel. Hasel was given a nine-month-prison sentence late January after the Supreme Court found him guilty of incitement to terrorism and offense against the dignity of the Spanish Crown and State institutions in his lyrics.  EPA-EFE/ALENJANDRO GARCIA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Sjötta daginn í röð flykktust mótmælendur út á götur Barselónaborgar til að segja álit sitt á fangelsun rapparans Pablos Haséls, sem dæmdur var og fangelsaður fyrir óvirðingu við konungsfjölskylduna og það sem dómurinn segir vera „upphafningu hryðjuverka" í textum hans og færslum á Twitter. Líkt og fimm undanfarin kvöld tók að hitna í kolunum þegar kvölda tók, en þó ekki jafn mikið og áður, enda farið að fækka nokkuð í hópi mótmælenda.

Nokkrir grímuklæddir mótmælendur köstuðu flöskum, hvellsprengjum og öðru lauslegu að lögreglumönnum sem stóðu vörð um höfuðstöðvar lögreglunnar í borginni, en þar kom ekki til átaka mótmælenda og lögreglu sem orð er á gerandi. Á göngu sinni frá aðallestarstöð borgarinnar kröfðust nokkur hundruð manns frelsis fyrir Pablo Hasél og nokkrir úr þeirra hópi hrófluðu upp götuvígjum á Römblunni, helstu breiðgötu borgarinnar, grýttu lögreglu og brutu rúður í nærliggjandi verslunum.

Um 100 manns hafa verið handtekin í mótmælum í Barselóna og víðar eftir að Hasél var fluttur í varðhald á þriðjudag, þar af fimm í kvöld. Hæstiréttur staðfesti nýverið níu mánaða fangelsisdóm yfir þessum orðhvata, 32 ára rappara. Mótmælendur, stór hópur úr fremstu röð spænskra listamanna og mannréttindasamtökin Amnesty International krefjast frelsunar Haséls og segja dóminn alvarlega aðför að tjáningarfrelsi á Spáni.