Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Geimurinn og listin á stöðugri hreyfingu

Mynd: Listsafn Íslands / Listsafn Íslands

Geimurinn og listin á stöðugri hreyfingu

21.02.2021 - 10:00

Höfundar

Á sýningunni Halló, geimur í Listasafni Íslands er skyggnst inn í undraveröld himingeimsins með hjálp listaverka í safneigninni. Þar er meðal annars skoðað hvernig ný geimöld hafði áhrif á myndllistarmenn og hvernig himintunglin koma inn í þjóðtrú og ævintýri.

Sýningin Halló, geimur er sérstaklega hugsuð fyrir börn og fjölskyldur. Það eru tveir starfsmenn úr fræðsludeild safnsins, Guðrún Jóna Halldórsdóttir og Ragnheiður Vignisdóttir, sem sjá um sýningarstjórn. Þær sögðu frá sýningunni í Víðsjá á Rás 1.

Framúrstefnuleg verk Finns Jónssonar, sem fyrstur Íslendinga tókst á við geiminn í verkum sínum á fyrri hluta 20. aldar, urðu kveikjan á sýningunni en á henni eiga á þriðja tug listamanna verk.

„Við höfðum nokkurn veginn frjálsar hendur við að velja okkur þema sýningarinnar en þetta kom fljótt upp,“ segir Ragnheiður Vignisdóttir sem er sýningarstjóri ásamt Guðrúnu Jónu Halldórsdóttur. „Við vildum skoða hvernig íslenskir myndlistarmenn hafa skoðað geiminn og unnið með hann í verkum sínum. Við vissum af nokkrum listaverkum eftir Finn og meðal annars verkinu sem sýningin fær nafn sitt frá og heitir Halló, geimur.“

Tumi leiðsögumaður

Á veggjum aðal sýningarsalarins sem sýningin tekur yfir birtist gestinum ungur drengur sem stillir sér upp víða um rýmið, hugsar upphátt og talar til gestsins. „Þetta er hann Tumi sem leiðir okkur í gegnum sýninguna,“ segir Guðrún Jóna Halldórsdóttir. „Hann segir gestinum vísindalegar staðreyndir um himingeiminn sem Sævar Helgi Bragason hefur unnið með okkur. Tumi á semsagt í samtali við verkin og tengir vísindin við listina og leiðir gesti í gegnum sýninguna.“

Tumi á uppruna sinn í barnabók Ásgerðar Búadóttur sem að heitir Rauði hatturinn og krummi og kom út 1961. „Fyrir tveimur árum fékk safnið leyfi hjá afkomendum Ásgerðar til að nota Tuma og myndirnar úr bókinni sem merki Krakkaklúbbsins okkar sem var stofnaður 2018. Hér er hann síðan kominn út úr bókinni og tekur þátt í sýningunni,“ segir Ragnheiður.

Mynd með færslu
 Mynd: Listsafn Íslands
Litríkir „drykkir“ í Norðurljósabar Halldórs Ásgeirssonar.

Norðrið hringsnýst

Tvær áberandi innsetningar eru hluti af sýningunni. Annars vegar hið flennistóra verk Steinu Vasulka sem heitir Of the North (Af Norðrinu) og tekur yfir heilan sal safnsins og hins vegar Norðurljósabar Halldórs Ásgeirssonar.

Báðar vekja þær mikla athygli gesta, ekki síst þeirra sem eru í yngri kantinum. Verk Steinu er einkar áhrifamikið en þar vinnur hún með íslenska náttúru, mosa, hraun og himinn til dæmis. Varpanir hringsnúast á veggjum en gesturinn gengur á háglansandi svörtum dúk. „Það er því svolítið eins og við séum að ganga inn í himingeiminn,“ segir Ragnheiður. „Fólk er að setjast á gólfið hérna eða jafnvel leggjast niður og eyðir löngum tíma hér inni því verkið er dáleiðandi.“

Norðurljósabar Halldórs er samsettur úr flöskum og ílátum með alls kyns lituðum vökvum. Barinn hringsnýst og ljós lýsa upp vökvann og varpa allskyns litum á veggina í ríminu. „Það má því segja að hér göngum við inn í heim Halldórs og horfum á norðurljósin á veggnum. Suma fer reyndar að sundla ef þeir eru lengi hér inni, en það eru kannski áhrifin sem barinn getur haft á mann, ef maður fær sér einum of marga litríka kokteila,“ segir Ragnheiður. 

Nánar er rætt við Ragnheiði og Guðrúnu Jónu í innslaginu hér að ofan. Sýningin mun vera uppi í safninu fram í janúar á næsta ári en fjölbreytt viðburðahald verður í kringum hana, leiðsagnir og móttökur fyrir hópa. Sýningin er fyrirtak fyrir fjölskyldur að skoða saman og nánari upplýsingar má finna hér.