Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Facebook lokar á herinn í Mjanmar

21.02.2021 - 05:42
epa09027053 English premier league fans display placards during a protest against the military coup outside the Chinese Embassy in Yangon, Myanmar, 21 February 2021. At least three people died as mass protests and resistances grow against the military coup across the country despite reports of increasing use of force by security forces and mass arrests of anti-coup activists.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Facebook eyddi í dag fréttasíðu hersins í Mjanmar á þeim forsendum að þar væri verið að hvetja til ofbeldis. Tveir mótmælendur voru drepnir af hermönnum í Mjanmar í gær. Í yfirlýsingu Facebook segir að vegna ítrekaðra brota hafi síðu hersins verið lokað. Síðan var á vegum fréttamiðils hersins, Tatmadaw True News. Herinn er alla jafna nefndur Tatmadaw í Mjanmar. 

Síðan hefur ítrekað verið notuð til þess að dreifa fregnum af því að svindlað hafi verið í þingkosningunum í nóvember. Það sé ástæðan fyrir því að Þjóðfylking Aung San Suu Kyi hafi fengið öruggan meirihluta á þingi. Herinn rændi völdum í landinu 1. febrúar, rétt áður en nýkjörið þing átti að koma saman. Fjöldi stjórnarliða var handsamaður af hernum, þeirra á meðal Suu Kyi.

Fjölmenni hefur komið saman á degi hverjum til að mótmæla valdaráninu, þrátt fyrir sífellt herskárri aðgerða hersins til að kveða niður mótmælin. Tveir mótmælendur létu lífið í borginni Mandalay í gær þegar hermenn skutu á hóp mótmælenda. 

Þetta er fjarri því fyrsta síðan tengd hernum sem Facebook lokar. Að sögn AFP fréttastofunnar hefur mörg hundruð síðum verið lokað síðustu ár, þá sérstaklega eftir að Facebook var gagnrýnt fyrir að bregðast ekki við herskáum færslum tengdum herferðinni gegn Róhingjum. Meðal þeirra sem hefur verið úthýst af Facebook er Min Aung Hlaing, hershöfðingi og leiðtogi herstjórnarinnar sem rændi völdum. Aðgangi hans var lokað árið 2018, ári eftir að herferðin gegn Róhingjum hófst. Þá hafði rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna leitt í ljós að réttast væri að sækja herinn til saka fyrir þjóðarmorð.

Eins hefur aðgangi uppreisnarhópa sem berjast gegn hernum í Mjanmar verið lokað, auk síðna herskárra búddamunka sem eru sakaðir um að hvetja til ofbeldis gegn múslimum.