Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

COVID hundurinn líklega í fíkniefnaleit

21.02.2021 - 12:49
epa06907999 Flinney, a springer spaniel  takes a dip in a pond in Hampstead Heath in London, Britain, 24 July 2018. Health warnings have been issued this week after forecasters predicted record-breaking temperatures could reach 35 degrees centigrade in some parts of the country.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA - RÚV
Lögregluhundur sem fluttur var til landsins fyrir jól til þess að þefa uppi COVID smit verður ekki þjálfaður í starfið. Hann verður þó ekki verklaus, enda sprækur, og fer líklega í fíkniefnaleit.

Áreiðanleikinn meiri en 90%

Sérþjálfaðir COVID leitarhundar hafa gefið góða raun ytra. Einn hundur var fluttur hingað í desember og dvelur nú í góðu yfirlæti á Sauðárkróki. Hans bíða önnur verkefni. 

Íslenskir lögreglumenn, eins og Steinar Gunnarsson yfirhundaþjálfari lögreglunnar sem býr á Króknum, hafa síðan eftir á kórónuveirufaraldurinn kom upp tekið þátt í alþjóðlegum vinnuhópi um notkun leitarhunda til að þefa uppi kórónuveiruna. Hundarnir hafa mest verið notaðir á flugvöllum eins og í Helsinki, Dubai og Síle. Sýni eru tekin úr handarkrika farþega með sótthreinsuðum klút og hundarnir svo látnir þefa af klútunum. 

„Þar hefur komið á daginn að þessir hundar eru að skila hvað allt upp í 94, 98% áreiðanleika á móti kannski 50 til 70% með PCR-testi,“ segir Steinar.

Alveg stórkostlegur hundur

Verkefnið var komið það langt á veg að hingað var fluttur enskur Springer Spaniel. Þegar hann kom í desember hafði dregið úr smitum. Því var ákveðið að hætta við. 

„En eins og staðan er í dag sko þá er kannski ekki nóg af sýnum til að byrja þjálfun sko. En það hefði verið mjög hentugt þarna þegar við vorum að taka hann inn, ætluðum að byrja. Þá var nóg til sko.“ 

En nú er hundurinn kominn til landsins verður hann þá atvinnulaus?

„Nei, nei, hann er klár í slaginn. Og það er þá spurning bara hvort hann verður þjálfaður á fíkniefni eða sprengiefni eða fíkniefni.“

Er þetta góður hundur?

„Þetta er alveg frábær hundur, bara alveg stórkostlegur.“  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Steinar Gunnarsson.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV