Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Býst við minnisblaði í dag - Þórólfur loðinn í svörum

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, reiknar með að fá minnisblað frá Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalæknir, í dag með tillögum um frekari tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum innanlands. Núverandi reglugerð fellur úr gildi 3. mars. Þórólfur er sjálfur loðinn í svörum og vill ekki segja af eða á hvort hann sendi ráðherra minnisblaðið í dag. „Það er aldrei að vita.“

Svandís sagði í útvarpsþættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að hún reiknaði með minnisblaði frá sóttvarnalækni í dag.  

Ný reglugerð um hertar aðgerðir á landamærunum tók gildi á föstudag og sagði Svandís eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag að markmiðið með þeim aðgerðum væri að geta slakað á aðgerðum innanlands. „Við eigum að láta samfélagið njóta þess þegar vel gengur.“ 

Eitt smit greindist innanlands í gær og var viðkomandi í sóttkví. Á föstudag var ekkert smit innanlands.

Þórólfur hefur sjálfur sagt að ein af forsendum þess að hægt sé að slaka á aðgerðum innanlands sé að koma veg fyrir það eftir fremsta megni að smit leki í gegnum landamærin. Hættan á nýrri bylgju komi að utan. 

Hann var býsna loðinn í svörum sínum til fréttastofu og vildi ekki segja af eða á hvort ráðherra fengi minnisblaðið í dag. Eins og margir ættu að vera farnir að þekkja sendir sóttvarnalæknir ráðherra minnisblað með tillögum sínum en það er síðan ráðherrans að ákveða hvernig reglugerðin um sóttvarnaaðgerðir verður. 

Venjan hefur verið sú að heilbrigðisráðherra fer yfir minnisblaðið á fundi ríkisstjórnarinnar og kynnir þar ákvörðun sína. Næsti fundur ríkisstjórnarinnar er á þriðjudag.

Og þótt margir beri þá von í brjósti um að slakað verði verulega á aðgerðum ítrekaði Þórólfur þá möntru sína á upplýsingafundi á fimmtudag að fara yrði varlega í allt slíkt.  Eitt af því síðasta sem hann myndi mæla með væri að fólk felldi grímuna á næstunni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV