Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Útilokar atkvæðagreiðslu um sameinað Írland næstu árin

20.02.2021 - 05:37
epa08749475 Ireland's Prime Minister (Taoiseach) Micheal Martin arrives for the second and last day of a face-to-face EU summit in Brussels, Belgium, 16 October 2020.  EPA-EFE/JOHANNA GERON / POOL
 Mynd: epa
Michéal Martin, forsætisráðherra Írska lýðveldisins, útilokar að efnt verði til kosninga um sameinað Írland á næstunni. Þá er hann sannfærður um að ákvæði Brexit-samningsins um fyrirkomulag mála á landamærum Írlands og Norður-Írlands haldi, þrátt fyrir byrjunarörðugleika.

Brexit jók áhuga á sameiningu Írlands

Áhugi á og umræður um mögulega sameiningu Írlands og Norður-Írlands hafa aukist í aðdraganda og kjölfar Brexit, þótt stuðningur við þá hugmynd hafi ekki vaxið með jafn afgerandi hætti og við sjálfstæði Skotlands. Og öfugt við skosku heimastjórnina hefur núverandi ríkisstjórn Írska lýðveldisins ekki verið fylgjandi því að efna til atkvæðagreiðslu um sameiningu.

Á því hefur engin breyting orðið. „Ég sé ekki fyrir mér að atkvæðagreiðsla um landamærin fari fram á næstu árum og örugglega ekki á meðan þessi ríkisstjórn er við völd," sagði Martin í viðtali við sjónvarpsstöðina France 24. Hann hafi þvert á móti unnið að því með ríkisstjórn sinni að finna leiðir fyrir Íra beggja vegna landamæranna til að deila eyjunni grænu í sátt og samlyndi.

Forsætisráðherrann segist leggja meiri áherslu á að sameina fólk en landsvæði og fá það til vinna saman að mikilvægum málum og sameiginlegum hagsmunum, óháð því hvar ríkisstjórn þeirra hefur aðsetur sitt. 

Gjörbreytt og stórbætt samband Írlands og Bretlands

Martin segir samskipti og samband Írlands og Bretlands hafa þróast og gjörbreyst til hins betra á síðustu áratugum, ekki síst á þeim tíma sem bæði ríkin voru innan vébanda Evrópusambandsins. Hann segist bjartsýnn á að sambandið verði jafngott eftir sem áður, nú þegar Bretar hafa yfirgefið sambandið, enda fari hagsmunir og helstu gildi Íra, Evrópusambandsins og Breta í flestu að mestu leyti saman.

Norður-Írlands-viðaukinn mun halda

Í viðauka Brexit-sáttmálans um fyrirkomulagið á landamærum Írlands og Norður-Írlands er útlistað hvernig hægt er að halda þeim opnum, þrátt fyrir að Írland sé í Evrópusambandinu en Norður-Írland ekki.

Lykilatriði í þessu er að tollalandamærin milli Bretlands og Evrópusambandsins eru færð frá landamærum Írlands og Norður-Írlands yfir á Írlandssund - sem sagt milli Norður-Írlands og breska meginlandsins.

Þetta er ekki síst gert til að hrófla ekki við friðarsáttmálanum frá 1998, þar sem skýrt er kveðið á um frjálsa för fólks og varnings milli Norður-Írlands og Írska lýðveldisins, án landamæramannvirkja eða eftirlits af nokkru tagi.

Þessi lausn hefur farið illa í marga sambandssinna á Norður-Írlandi, sem segja þetta mismunun sem skaði norður-írskt atvinnu- og efnahagslíf. Þeir þrýsta því á bresk stjórnvöld að falla frá þessum viðauka.

Martin óttast ekki að stjórnin í Lundúnum láti undan þeim þrýstingi og er bjartsýnn á að fundin verði ásættanleg lausn á þeim vandamálum sem upp hafi komið, báðum aðilum til hagsbóta.