Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tuttugu farþegar án vottorðs í dag

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Tuttugu farþegar sem komu til landsins síðasta sólarhring voru ýmist án tilskilins vottorðs eða með rangt vottorð. 

Þrettán með röng vottorð

Tvöhundruð farþegar komu með flugi frá Varsjá rétt eftir miðnætti í nótt. Fimm þeirra voru án PCR-vottorðs, en reglugerð um skyldu til að framvísa slíku vottorði um smitleysi tók gildi í gær. Flugvélar frá Kaupmannahöfn og Amsterdam lentu upp úr klukkan þrjú með samtals 200 farþega. Tveir farþeganna voru ekki með neitt vottorð. Þrettán farþegar sýndu hins vegar vottorð um neikvæða niðurstöðu úr svokölluðu hraðprófi. Þau eru ekki tekin gild hérlendis. Því er öfugt farið í Danmörku.

Krafist ólíkra vottorða á Íslandi og í Danmörku

Það er eflaust ruglandi fyrir suma og hefur sendiráð Íslands í Stokkhólmi til dæmis vakið athygli á þessu á Facebook-síðu sinni. Þannig þurfa þeir sem fara frá Svíþjóð til Íslands að framvísa niðurstöðu úr hraðprófi þegar millilent er í Kaupmannahöfn og svo PCR-vottorði þegar komið er til Íslands. Allir sem koma vottorðslausir um helgina sleppa við sekt. 

Lögreglan hefur eftirlit með að farþegar séu ekki sóttir á völlinn og hefur tekið niður bílnúmer og gert lögreglu á höfuðborgarsvæðinu viðvart sé grunur um brot. Í gær voru þrjár konur nýkomnar til landsins og þar með í sóttkví sóttar af ökumanni Jaguar bifreiðar.  

Ekkert smit greindist innanlands í gær en eitt á landamærum, samkvæmt bráðbirgðaupplýsingum frá Almannavörnum.