Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þeir sem neita að bera grímu eru oftast undir áhrifum

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Nokkuð er um að lögregla sé kölluð til þegar viðskiptavinir verslana neita að bera andlitsgrímur þrátt fyrir tilmæli þar um. Lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að yfirleitt sé um að ræða fólk undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og að þessum málum ljúki oftast með sektargreiðslu. 

Í gærkvöldi óskaði starfsmaður verslunar í miðborg Reykjavíkur eftir aðstoð lögreglu eftir að hafa orðið fyrir árás viðskiptavinar sem neitaði að bera andlitsgrímu. Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að um hafi verið að ræða karlmann, sem hafi verið sleppt eftir tiltal lögreglu.

„Þar kom maður án grímu inn í verslun. Hann var beðinn um að setja upp grímuna en neitaði því og brást illa við og ógnaði starfsmanni. Þannig að hann hringdi á lögreglu sem kom á staðinn. Við tókum niður allar upplýsingar um þennan mann, hann verður tekinn fyrir eftir helgi og á von á að greiða sekt. Ef hann greiðir ekki sektina þá fer þetta fyrir dómstólana,“ segir Guðmundur Páll. 

Hann segir að í þessum aðstæðum sé starfsfólki verslana gjarnan hótað eða á það ráðist. Hann segist ekki vita til þess að alvarleg meiðsl hafi hlotist af, en fólki sé eðlilega brugðið og að stundum komi til handtöku. Um sé að ræða nokkuð fjölbreyttan hóp fólks á ýmsum aldri. „Að vísu er meirihlutinn karlar,“ segir Guðmundur Páll.