Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir Þorlákshöfn verða lykilhöfn vöruflutninga

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Gangi áform um stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn eftir styttast siglingaleiðir stærri skipa til Evrópu verulega og umhverfisáhrif flutninga dragast saman. Stækkun hafnarinnar gæti einnig opnað fyrir ferðamannastraum á Suðurlandi. Brimbrettaiðkenndur eru uggandi vegna áformanna.

Verði hugmyndir um stækkaða höfn að veruleika geta 180 metra löng og 30 metra breið skip, sem eru álíka stór og Norræna, lagst að bryggju.

„Siglingar við Evrópu koma að stóru leyti  til með að flytjast hingað til Þorlákshafnar, það er okkar trú. Við byggjum það á því að þetta er ekki bara hagkvæmara, það munar um sólarhring í siglingum við Evrópu að sigla til Þorlákshafnar eða við höfuðborgarsvæðið. Þar að auki er kolefnissporið mun léttara,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.

Boðið út með hækkandi sól

Búist er við að kostnaður við framkvæmdina nemi rúmlega 3 milljörðum sem skiptist á milli sveitarfélagsins og ríkisins.

„Þá gæti jafnvel orðið vikulegar siglingar með farþega hingað á suðvestur hornið og í þessari stöðu sem nú er þá tel ég það mjög kærkomna vítamínsprautu fyrir ferðaþjónustuna,“ 

Hversu langt eru þessar hugmyndir komnar?

Við búumst við því að með hækkandi sólu munum við bjóða út fyrsta áfanga í framkvæmdinni. Það er lenging á suðurvarargarðinum. Hann mun lengjast um 200 metra. Það er fyrsta skrefið í þriggja ára ferðalagi sem við erum að leggja í en innan  tveggja ára ættum við að geta byrjað að nota höfnina,“ segir Elliði.

Óttast að öldurnar lægi

Rétt sunnan við fyrirhugaða stækkun er mikið brimbrettasvæði sem brimbrettafólk óttast um. 

„Þorlákshöfn er miðpunktur brimbrettaiðkunar á Íslandi og er búin að vera það í yfir 20 ár eða frá því að íþróttin hófst hér á landi. Það er því mjög mikilvægt að við fáum að hafa einhver áhrif á þessar áætlanir, því eins og þær standa þá myndi stækkun hafnargarðsins hafa veruleg áhrif á ölduna þannig að hún myndi hreinlega hverfa. Við erum að biðla til bæjaryfirvalda í Þorlákshöfn til að taka tillit til okkar sjónarmiða því það er vissulega hægt að fara í þessa stækkun án þess að aldan verði fyrir verulegum skemmdum,“ segir Ólafur Pálsson fulltrúi Brimbrettafélags Íslands.

Hann segir að Brimbrettafélagið hafi fundað með bæjaryfirvöldum á dögunum. Þeim hafi verið vel tekið. Meðal annars afhendi félagið Elliða bæjarstjóra brimbretti svo hann geti reynt sig við öldurnar á eigin skinni.