Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Samfélög rifna upp og niður

Mynd:  / 

Samfélög rifna upp og niður

20.02.2021 - 14:45

Höfundar

Halldór Armand Ásgeirsson fylgdist furðulostinn og grátklökkur með þegar smáfjárfestar á spjallsíðunni Reddit fóru í hart við vogunarsjóði á Wall Street.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

„Samfélög rifna ekki hægri, vinstri, þau rifna upp og niður.“

Þessi setning var sögð við mig um helgina og ég held að hún sé hárrétt. Í vestrænum fjölmiðlum snýst allt um gjána milli hægri og vinstri en raunverulega gjáin er upp og niður, þar sem sami efnahagslegi kvíðinn þjakar fólkið í neðri hluta samfélagsins hvort sem það er í prinsippinu hlynnt frjálsum mörkuðum eða ekki.

Atburðarásin í kringum hlutabréfaverðið á fyrirtækinu Gamestop í Bandaríkjunum að undanförnu er gott dæmi um þetta. Það sem gerðist í mjög stuttu máli er að stórir vogunarsjóðir á Wall Street veðjuðu miklum fjárhæðum á að hlutabréfaverð í fyrirtækinu Gamestop myndi lækka. Gamestop eru tölvuleikjabúðir um öll Bandaríkin. Fyrirtækið hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan tölvuleikjasala fór að færast yfir á netið og covid-faraldurinn hjálpaði svo sannarlega ekki til. Hrægammasjóðirnir hugsuðu sér því gott til glóðarinnar. Hið óvænta sem síðan gerðist var að stór hópur fólks á Reddit-síðunni Wallstreetbets tók sig til og byrjaði að kaupa bréf í Gamestop í massavís til þess að þrýsta hlutabréfaverðinu upp á við og valda þannig vogunarsjóðunum, sem höfðu veðjað á lækkað verð, miklu fjárhagslegu tjóni. Og það gerðist. Verðið rauk upp á við og sjóðirnir töpuðu milljörðum dollara. 

Hver sem er gat fylgst með umræðunum á Wallstreetbets og tekið þátt í þessari aðgerð gegn vogunarsjóðunum. Þetta fyllti sjálfan mig þeirri fágætu tilfinningu að vera í senn furðu lostinn en um leið algjörlega heillaður af því sem fyrir augu bar. Þarna var sem sagt risastór hópur fátæklinga að fremja einhvers konar fjárhagslega sjálfsmorðsárás á stærstu vogunarsjóði heims. Ég las eins konar vitnisburði margra notenda Wallstreetbets sem margir hverjir fóru nærri því að græta mig. Þarna lýsti fólk því hvernig efnahagshrunið 2008 lék fjölskyldur þeirra og dæmdi þær til fátæktar allar götur síðan og hvernig það hafði núna tekið peninginn sem það eyddi venjulega í húsaleigu til að kaupa hlutabréf í Gamestop í því skyni að hefna sín á Wall Street. Svona hljómaði til dæmis einn vitnisburðurinn:

„Ég ólst upp við fátækt og hef aldrei átt neinn pening. Ég hef unnið 50-90 stunda vinnuvikur í ömurlegum láglaunastörfum síðan ég var 18 ára. Ég hef stritað og strögglað við að borga af lánum og lifað frá einum launatékka til annars öll mín fullorðinsár. Ef þið haldið að tilhugsunin um að tapa nokkur hundruð dollurum í Gamestop hræði mig þá skjátlast ykkur hrapallega. Ef þú átt aldrei meira en 1.000 dollara inni á bankareikningi, hvaða máli heldurðu þá að það skipti að þú eigir bara hundrað eða tíu. Mér er nákvæmlega sama, ég hef verið í þessari stöðu óteljandi sinnum áður. Ég ætla aldrei að selja þessi bréf.“

Pólitískt rangur Davíð sigrar Golíat

En það sem gerði þessa atburðarás svo extra yndislega fyrir áhorfanda eins og mig og um leið erfiða umfjöllunar fyrir venjulega fjölmiðla, sem eru svo vanir því að skipta öllu í hægri og vinstri, er hversu óheflað málfarið og húmorinn er inni á Wallstreetbets. Það fer ekki mikið fyrir pólitískum rétttrúnaði þarna inni, notendurnir hæðast linnulaust að sjálfum sér með alls konar orðum og marglaga vísunum sem eru þyrnir í augum siðapostula. Ímyndaðu þér glímu Davíðs og Golíats, nema hvað að Davíð er alltaf að segja eitthvað sem hann á ekki að segja í miðjum slagsmálunum og er með kolsvartan húmor sem þolir ekki dagsljósið. 

Þetta var upp og niður barátta, ekki hægri vinstri. Á Wallstreetbets eru bæði hægri og vinstri menn og það þarf ekki að lesa síðuna lengi til að sjá að samtakamátturinn þar er byggður á efnahagslegum kvíða en ekki hefðbundnum stjórnmálahugmyndum til vinstri eða hægri. 

Eins og sá ágæti blaðamaður Glen Greenwald hefur réttilega bent á hæðast fjölmiðlar í Bandaríkjunum, og aðrar ráðandi stéttir sem eiga sameiginlegt að koma úr elítuháskólum, jafnan að þeirri hugmynd að efnahagslegur kvíði geti drifið áfram eitthvað í líkingu við hægri pópúlisma. Í þeirra heimsmynd eru einu raunverulegu hvatarnir að baki því að nokkur manneskja gerist sek um þann ófyrirgefanlega glæp að kjósa einhvern eins og Trump rasismi, kvenhatur og annars konar mannfyrirlitning af sama toga, jafnvel þótt reyndar hafi milljónir manna sem kusu Obama tvisvar krossað við appelsínugula helstirnið árið 2016. Þess vegna eru stöðluðu viðbrögðin við hverjum þeim sem dirfist að víkja frá þeirra „frjálslyndu“ bókstafstrú, eða storka þeirra svarthvítu heimsmynd, að saka viðkomandi um kynþáttahatur, kvenhatur, hómófóbíu, transfóbíu og svo framvegis án þess að færa fram raunveruleg sönnunargögn fyrir einu eða neinu.

Nýjsta dæmið um þetta er ameríski fótboltaleikstjórnandinn Tom Brady sem í fyrrinótt vann Ofurskálina svonefndu. Í liðinni viku var hann í fjölmiðlum vestanhafs sakaður um að vera hvítur forréttindaseggur vegna þess að hann hefur ekki beðist afsökunar á því að kjósa Trump. Þessar 75 milljónir manna sem kusu skrímslið í nóvember skulda auðvitað fjölmiðlum og þjóðinni afsökunarbeiðni, það sér hver maður.

Íhald ver … Assange

Sjálfan grunar mig að áratugurinn sem nú gengur í garð verði einn sá merkilegasti á þessari öld. Nú er runninn upp tími hinnar miklu endurræsingar sem gerist reglulega í mannkynssögunni. Þetta er tímabil sem hófst líklega kringum efnahagshrunið 2008 og mun halda áfram á árunum 2020-30. Á síðustu 12 árum hafa alls konar gildi tekið að endurraðast, ýmislegt sem einu sinni einkenndi hægri eru núna tekið að einkenna vinstri og öfugt og þessi þróun mun halda áfram. Gott dæmi um þetta er þegar ég sá nýlega langa varnarræðu fyrir Julian Assange haldna, … á Fox News. Allt í einu er meginstraumsvinstri orðið hlynnt ritskoðun stórfyrirtækja og Fox News, af öllum, er farið að verja minn mann Assange, manninn sem það vildi eflaust láta lífláta fyrir ekki svo löngu síðan. Þar birtast nú líka reglulega viðtöl við vinstri sinnuð jaðarmenni eins og Glen Greenwald þar sem íhaldssamur spyrill kinkar brosandi kolli allan tímann. Á dauða mínum átti ég von en ekki á þessu.

Fjöldaáhlaup Reddit-örfjárfesta á vogunarsjóði var keyrt áfram af reiði í garð Wall Street, alveg eins og gerðist með Occupy Wall Street á sínum tíma um allan heim. Fólk er ekki búið að gleyma því hvernig dílað var við fjármálakreppuna 2008 þar sem ríkistjórnir hunsuðu í massavís venjulegt fólk í nauðum og varði óheyrilegum fjárhæðum af almannafé í björgunarpakka handa ríkasta fólkinu. Þetta lagði efnahagslega framtíð tuga milljóna ef ekki hundraða milljóna manna í rúst. Ég átta mig á því að það er ekki mjög nákvæm eða fáguð skýring, en mig grunar að þetta sé helsta ástæðan fyrir vinsældum manna og fyrirbæra eins og Sanders, Trumps, Brexit, Bolsonaros og svo framvegis. Þessu fólki er nákvæmlega sama hvort Tom Brady biðst afsökunar á að vera hvítur eða ekki. Þetta er jafnframt ástæða þess að traust í garð stjórnmálastéttarinnar er almennt í molum. Traust til stjórnmála á Íslandi hefur til dæmis verið afar lítið frá 2008. Þetta er ekki reiði frá hægri eða vinstri, heldur að neðan og upp á við. 

Fleiri vísbendingar um óeðlilegt ástand: Á sama tíma og atvinnuleysi hefur farið stigvaxandi hér á landi frá því að covid-kreppan hófst hefur úrvalsvísitala Kauphallarinnar aukist um rúm 60% og fasteignaverð hækkað um 7,7%. Hver græðir mest á því? Og á hverjum bitnar það? Það er líka grátbroslegt að núna í miðri kreppu og 11% atvinnuleysi þyki mikið kappsmál niðri á þingi að hækka verð á innfluttum mat á Íslandi. Matvælaverð er jú skammarlega lágt á Íslandi og mikið hneyksli hvað almenningur borðar lítið af brauðskinku. Hvort er brauðskinkan tragedía eða farsi? Að sama skapi ætti ekki að koma neinum á óvart að það sé andstaða við bankasölu á Íslandi. Það eru örugglega alls konar frábær rök fyrir því að selja Íslandsbanka. En þessi rök bíta bara ekkert á óttann. Og það sem fólk óttast er að bankinn verði gefinn eins og aðrar auðlindir, tæmdur að innan og reikningurinn síðan sendur skattgreiðendum. Af hverju ætti fólk ekki að óttast það? Sjálfur veit ég ekkert um hvort það er skynsamlegt eða ekki fyrir ríkið að selja eða eiga banka, satt best að segja er ég það sýnískur að ég held að það fari illa fyrir skattgreiðendur í báðum tilvikum, en þetta er ótti sem ég skil hins vegar 100%.

Það er fallegur og heiðskír dagur fyrir utan gluggann þegar ég skrifa þessi orð. Einhvers staðar er Tom Brady að baða sig í dýrð eigin hvítleika, einhvers staðar er einhver að hugsa eða segja eitthvað sem hann á ekki að hugsa eða segja, einhvers staðar er Julian Assange að nudda í sér augun fyrir framan Fox News, einhvers staðar er verslunareigandi að hækka bæði verðið á skotheldu gleri og Serrano-skinku. Dagurinn er skær eins og kristall, og undir borðinu er togað í dúkinn, upp og niður, upp og niður.