Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ríkið viðurkennir brot á rétti Magnúsar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Íslenska ríkið hefur undirritað sátt við Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, þar sem viðurkennt er að ríkið hafi brotið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar. Þetta kom fram í máli Kristínar Edwald, verjanda hans, í málflutningi í Landsrétti í gær. Þá lauk aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Magnúsi, Hreiðari Má Sigurðssyni og Sigurði Einarssyni vegna lánveitinga til vildarviðskiptavina skömmu fyrir hrun.

Sáttin byggir á dómi Mannréttindadómstóls Evrópu um að dómari í al Thani málinu hafi verið vanhæfur og máli Magnúsar hjá Mannréttindadómstólnum vegna dóms í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Þar hélt Magnús því fram að hann hefði ekki fengið réttláta málsmeðferð vegna vanhæfis dómara. Eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu samþykkti að taka mál Magnúsar fyrir ráðlagði dómstóllinn deilendum að ganga frá sátt sín í milli, sem varð niðurstaðan.

Í sáttinni er fólgin viðurkenning ríkisins á að brotið hafi verið á rétti Magnúsar til réttlátrar málsmeðferðar, greiðsla ríkisins upp á tólf þúsund evrur, andvirði tæpra tveggja milljóna króna, og viðurkenning á að Magnús geti óskað eftir endurupptöku málanna. Þetta eru tvö þeirra þriggja mála þar sem Magnús hefur verið sakfelldur. Endurupptökunefnd hafnaði á sínum tíma beiðnum sakborninga í al Thani málinu um endurupptöku, áður en sakborningar fóru með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.