Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Grímulaus maður réðst á afgreiðslumann

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Of margir gestir reyndust vera á einum af þeim fimmtán krám og veitingastöðum sem lögreglumenn fóru á í eftirlitsferð í miðborg Reykjavíkur í gærkvöld. Kannaðar voru sóttvarnir, fjöldi gesta og afgreiðslutíma á stöðunum. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að á langflestum staðanna hafi ráðstafanir verið góðar og í samræmi við gildandi reglur. Á einum þeirra hafi hins vegar verið of margir gestir og hólfaskipting ógreinileg. Þá hafi starfsmenn ekki verið með grímur.

Málið er rannsakað sem brot á reglum um samkomutakmarkanir og skýrsla rituð um málið.  

Þá kemur fram í dagbók lögreglu að starfsmaður verslunar hafi óskað eftir aðstoð lögreglu á tólfta tímanum í gærkvöld eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás frá viðskiptavini sem neitaði að vera með andlitsgrímu.  

Alls bárust lögreglu 11 tilkynningar um hávaða í heimahúsum. Þá var kannabisræktun stöðvuð í tveimur íbúðum. Í annarri eftir að tilkynnt var um líkamsárás en í hinni eftir að nágrannar höfðu tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir. 
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV