Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brasilíska afbrigðið greinist í Svíþjóð

Mynd með færslu
 Mynd: webmd
Fjórir Svíar hafa greinst með brasilíska afbrigði kórónuveirunnar. Þetta er í fyrsta skiptið sem þetta afbrigði greinist í landinu. Allir sem greindust eru búsettir í Gävleborg-héraði sem er í austurhluta landsins.

Sóttvarnalæknir héraðsins, Shah Jalal, segir í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT að smitin hafi verið greind í gærkvöldi. Verið sé að útfæra sérstakar sóttvarnareglur í héraðinu í kjölfar smitsins, ekki liggi fyrir hvernig þær verði, en íbúar á svæðinu eru hvattir til að halda sig sem mest heima við.

Hann segir að fólkið sem greindist með brasilíska afbrigðið hafði ekki ferðast til annarra landa nýverið, en hafi verið á ferð um Svíþjóð. Þetta er skilgreint sem lítil hópsýking og nú er unnið að smitrakningu. Ómögulegt sé að segja hvort fleiri Svíar hafi smitast af þessu afbrigði veirunnar.

„Þetta veldur vissulega áhyggjum,“ segir Jalal í samtali við SVT.