Allt lokað í samtals 99 daga síðastliðið ár

Heilbrigðisráðherra hefur gefið út 18 reglugerðir um sóttvarnir á liðnum mánuðum
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Síðan heimsfaraldur kórónuveirunnar náði ströndum Íslands í lok febrúar fyrir ári síðan hefur heilbrigðisráðherra gefið út 18 reglugerðir með breytingum á sóttvarnaráðstöfunum innanlands. Ráðherra hefur svo gefið út breytingar á þessum tillögum, sett sér reglur um skóla og landamæri og jafnvel gefið út reglusett fyrir einstök svæði á landinu.

Lestu útgáfu fréttarinnar á ensku hér

Nú þegar búið er að herða sóttvarnaaðgerðir á landamærum Íslands hafa ráðamenn boðað nýja útgáfu af takmörkunum innanlands. Á síðustu vikum hefur Íslendingum svo gott sem tekist að kveða faraldurinn niður og síðustu daga hafa aðeins örfá smit greinst.

Síðan heimsfaraldur kórónuveirunnar náði ströndum Íslands í lok febrúar fyrir ári síðan hefur heilbrigðisráðherra gefið út 18 reglugerðir með breytingum á sóttvarnaáðstöfunum innanlands. Ráðherra hefur svo þessu til viðbótar gefið út breytingar á þessum tillögum, sett sér reglur um skóla og landamæri og jafnvel gefið út reglusett fyrir einstök svæði á landinu.

Fyrsta reglugerðin tók gildi 16. mars 2020. Það þóttu tímamót þegar samkomutakmarkanir voru settar á í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins, eins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra komst að orði þegar nýju reglurnar voru kynntar.

Síðan þá eru liðið tæpt ár – 340 dagar – og á þeim öllum hafa Íslendingar búið við samkomutakmarkanir og fleiri kvaðir sem fylgir sóttvarnaráðstöfunum.

Tímalína sóttvarnaaðgerða

Hér höfum við stillt þessum sóttvarnaráðstöfunum upp á myndrænan hátt og lagt á einskonar tímalínu. Á tímalínunni má sjá gildandi reglur um bari og skemmtistaði, sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og snyrtistofur, rakara og nuddstofur, auk samkomutakmarkana.

Þetta er allt lagt yfir súluritið sem allir Íslendingar þekkja: Fjöldi nýrra daglegra smita.

Við merkjum tímalínuna svona:

 

Grímuskylda
Opið á stöðum með vínveitingaleyfi
Opið á snyrtistofum
Sundlaugar opnar
Líkamsræktarstöðvar opnar

Samkomutakmarkanir eru svo merktar með þessum táknum og fjölda fólks sem má koma saman:

Fyrsta bylgjan

Fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi 28. febrúar í fyrra. Smitunum fjölgaði svo í tæpar tvær vikur áður en stjórnvöld settu fyrstu reglurnar hér á landi. Það var 100 manna samkomutakmörkun. Þessu fylgdu engar lokanir eða takmarkanir að öðru leyti, nema tveggja metra reglunni var komið á og tilmæli til fólks að þvo sér reglulega um hendur og sótthreinsa allt. Reglugerðin átti að gilda til 12. apríl.

Þegar fjöldi nýrra smita tók stórt stökk 17. mars og dagana á eftir var ljóst að grípa þurfti í taumana. Þá voru nýjar reglur settar og börum og skemmtistöðum, sundlaugum, líkamsræktarstöðvum og snyrtistofum, nuddstofum og hárgreiðslustofum gert að loka. Um leið var ekki fleirum en 20 leyft að koma saman.

Þessar hertu reglur báru árangur og fjölda nýrra smita tók að fækka, alveg þar til þau urðu sárafá í hverri viku.

 

Aðgerðir
Ný dagleg smit

Í lok maí höfðu aðeins fáein smit greinst vikurnar á undan og þess vegna var tækifæri til þess að rýmka samkomutakmarkanir í 200 manns, leyfa fólki að komast til rakara og í nudd.

Það mátti fara á barinn og út á lífið, þó ekki lengur en til 23:00. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar voru einnig opnaðar með takmörkunum fyrst um sinn. Í þessari samantekt er það talið til takmarkanna þegar ákveðinn rekstur eða athöfn er tiltekin í reglugerð. Samkomutakmarkanir gilda þó áfram um alla starfsemi og þess vegna var allur rekstur takmörkunum háður.

Takmarkanir á opnunum sundlauga og líkamsræktarstöðva gilti þó aðeins í um þrjár vikur; þar til 15. júní þegar allt var opnað á ný. Þá var 500 manns leyft að koma saman.

 

Opið en með takmörkunum

Í lok júlí fór smitum aftur að fjölga. Þá höfðu yfirleitt liðið nokkrir dagar á milli nýrra smita síðan í maí. Nýjar og hertar samkomutakmarkanir tóku gildi 31. júlí þegar mest 100 manns máttu koma saman. Það Annað breyttist ekki í þessari reglugerð, nema að þarna er grímuskylda kynnt til sögunnar.

Fyrst um sinn var aðeins skyld að nota grímu þar sem ekki var hægt að tryggja tveggja metra regluna, eins og til dæmis hjá hársnyrti eða nuddara og í almenningssamgöngum. Síðar – þann 20. október –varð grímuskyldan víðtækari og fólk þurfti að setja upp grímu í verslunum og á opinberum stöðum. Í þessari samantekt er grímuskyldan merkt með snyrtistofunum.

Sundstaðir og líkamsræktarstöðvar máttu áfram hafa opið en auknum takmörkunum.

Um miðjan september gerðu yfirvöld tilraun til þess að auka samkomutakmarkanir aftur og nú upp í 200 manns. Einnig var tveggja metra fjarlægðarmörkunum breytt og fólk mátti standa með eins meters millibili í röðum í verslunum, sem dæmi. Þá hafði smitum ekki fjölgað af ráði og nýjum daglegum smitum jafnvel tekið að fækka.

Það liðu ekki margir dagar af 200 manna samkomubanni þar til faraldurinn sótti í sig veðrið og hin svokallaða þriðja bylgja hófst. Ný reglugerð var sett 5. október, tveimur vikum áður en gildandi reglugerð átti að renna út, og nú var skellt í lás að nýju.

20 manns máttu koma saman, það mátti ekki fara í ræktina og alls ekki á barinn eða út á lífið. Sundlaugar máttu áfram hafa opið en með takmörkunum.

Enn var reynt á eins metra regluna, en hún varð aftur að tveggja metra reglu um leið og almenn grímuskylda var sett á 20. október. Í þeirri reglugerð var líkamsræktarstöðvum aftur leyft að opna með takmörkunum. En það var skammvinn gleði því ræktinni, sundlaugum og snyrtistofum var lokað rúmri viku síðar.

Og þá tók við 10 manna samkomubann.

 

Nú var farið einstaklega varlega og ekki hætt á tilslakanir nema að vel ígrunduðu máli. Það tók þess vegna 17 daga að leyfa snyrtistofum að opna á ný og 38 daga að opna sundlaugar með takmörkunum.

Samkomutakmarkanir við 10 manns var lengsta samfellda samkomutakmörkunin, án þess að fjöldanum væri hnikað; Varði samfleytt í 71 dag eða til 13. janúar.

Á nýju ári hafði smitum fækkað og alveg tryggt að Íslendingar höfðu haldið sig í jólakúlunni sinni og virt þær takmarkanir sem voru í gildi.

20 manns var leyft að koma saman 13. janúar og líkamsræktarstöðvum leyft að opna með ströngum takmörkunum. Það var svo tæpum mánuði síðar sem vínveitingastöðum var leyft að opna á ný, en enn með takmörkunum.

 

Núgildandi reglugerð um sóttvarnaráðstafanir gildir til 4. mars. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og aðrir ráðamenn hafa hins vegar sagt að nú sé stefnt að frekari tilslökunum í kjölfar þeirra hertra aðgerða á landamærunum sem tóku gildi í gær.

Svandís sagðist á föstudag eiga von á minnisblaði frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni nú um helgina eða á næstu dögum með tillögum að nýjum reglum.

20.02.2021 - 08:54