Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Við erum stöðnuð í jafnréttismálum“

Mynd með færslu
 Mynd: BSRB
„Við erum stöðnuð í jafnréttismálum. Það er engin raunveruleg framþróun,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um þann mikla mun á tekjum kvenna og karla sem fréttastofa fjallaði um í gær. Konur í sambúð með meistaragráðu hafa að jafnaði næstum hundrað þúsund krónum lægri heildartekjur á mánuði en karlar í sambúð með grunnháskólamenntun. Konur með grunnháskólamenntun hafa svipaðar heildartekjur og karlar sem aðeins hafa lokið grunnskóla og á landsbyggðinni hafa þeir hærri tekjur en þær.

Störf kvenna rangt metin frá upphafi

Sonja segir í samtali við fréttastofu að meginástæðan fyrir þessum mikla tekjumun sé kynskipting vinnumarkaðarins og að kvennastörf hafi verið rangt metin alveg frá upphafi: „Störf þar sem konur eru í meirihluta voru áður unnin inni á heimilunum og færðust svo inn á vinnumarkað, til dæmis umönnunarstörf og störf á leikskólum. Og þá er bara rangt gefið í upphafi af því að samfélag þess tíma mat þessi störf ekki að verðleikum, og það er ennþá þannig. Því ef það er rangt gefið í upphafi og launaþróun í hverjum kjarasamningi er svipuð milli kynjanna, þá er skekkjan alltaf til staðar,“ segir hún.

Margt spili inn í, til dæmis samspil fjölskyldulífs- og atvinnulífs; gjarnan lendi meiri ábyrgð á heimilisstörfum og umönnun barna og aldraðra á herðum kvenna en karla, konur taki lengra fæðingarorlof og vinni meiri ólaunaða vinnu inni á heimilinu en karlar. Þá starfi þær frekar í hlutastörfum og hafi því minni möguleika á starfþróun.  

„Kynbundið náms- og starfsval hefur líka áhrif, og líka völd og áhrif því konur veljast síður til stjórnunarstarfa en karlar. Og svo hafa staðalímyndir alltaf áhrif á þetta allt saman, bæði verðmætamatið en líka starfsval,“ segir hún.

Meira svigrúm til að hífa upp laun karla

Kynbundinn munur á atvinnutekjum er bæði á almennum vinnumarkaði og opinberum vinnumarkaði. „Við sjáum rosalegan mun á heildarlaunum milli karla og kvenna. Það er oft minni munur á grunnlaunum en þegar maður horfir á yfirvinnu og önnur laun sem bætast ofan á grunnlaun, þá eykst bilið verulega,“ segir Sonja.

Þegar hún er spurð hvað skýri það segir hún að stéttir þar sem konur séu í miklum meirihluta séu frekar á opinberum vinnumarkaði og þar starfi þær eftir taxta í kjarasamningi og hafi litla möguleika á launahækkunum. „Í störfum þar sem karlar eru í meirihluta er almennt meira tækifæri til að hækka launin. Það virðist vera meira svigrúm til að hífa karla upp í launum en konur,“ segir Sonja.

Vanmetið tilfinningaálag fylgi kvennastörfum

Hvaða leiðir er hægt að fara til þess að leiðrétta kynjamuninn?

„Leiðirnar til að vinna gegn þessu og útrýma skökku verðmætamati á kvennastörfum þurfa að vera fjölþættar,“ segir Sonja. „Í fyrsta lagi þurfum við að átta okkur á misréttinu sem er fólgið í þessu og velta fyrir okkur hvernig kvennastörf eru verðmetin og hvað vantar inn í,“ bætir hún við og útskýrir:

„Ég held það sé mjög vanmetið tilfinningaálag sem fylgir gjarnan störfum þar sem konur eru í miklum meirihluta. Það er algengt í störfum þar sem karlar eru í meirihluta að þeir fái aukagreiðslur fyrir atriði sem ógna öryggi þeirra, en það hefur ekki tíðkast jafnmikið í kvennastéttunum. Ef við tökum til dæmis þá sem starfa við löggæslu þá er viðbót í launum vegna öryggisógnar, en konur sem vinna til dæmis með fólki sem ræður ekki gerðum sínum, þær fá þetta ekki metið til launa með sama hætti,“ segir hún.

Sonja telur að fyrsta skrefið sé að viðurkenna að laun kvenna hafi verið röng alveg frá byrjun, eins hún ræddi hér að ofan. Kynbundin skekkja í verðmætamati starfa verði áfram til staðar ef ekki verði tekin ákvörðun um að vinna gegn henni.  

Faraldurinn varpar ljósi á mikilvægi ákveðinna starfa

Og finnið þið fyrir áhuga á því hér á landi að breyta þessu?  

Sonja segir að nú sé engin raunveruleg framþróun í jafnréttismálum og að þrátt fyrir að Ísland komi vel út í alþjóðlegum samanburði þurfi framsækni: „Maður þarf að fremja jafnrétti til þess að ná því. Þetta er sífelluverkefni, þú hakar ekki í box og klárar þessa vinnu,“ segir hún.

Hún er þó bjartsýn og segir að kórónuveirufaraldurinn hafi varpað ljósi á mikilvægi ýmissa starfa sem konur vinna frekar en karlar. „Maður finnur það núna út frá kórónuveirufaraldrinum að það eru allar þjóðir heims að ræða þetta. Núna er kastljósið á mikilvægi þessara starfa, framlínufólksins, sem að miklum meirihluta til eru konur og eru í heilbrigðisstéttum eða umönnunarstéttum og í skólunum. Og við finnum það til dæmis innan alþjóðasamtaka sem við eigum aðild að að það eru allir að velta því fyrir sér hvernig má útrýma þessu skakka verðmætamati og átta sig á því að það hefur ekki verið borin nógu mikil virðing fyrir þessum störfum og að það þurfi að leiðrétta það. Og ég tel að þessi sama vitundarvakning hafi átt sér stað hér á landi, að við sjáum það að þetta eru ómissandi störf og þá verðum við að tryggja fólki laun í samræmi við verðmæti starfanna og það framlag til samfélagsins alls sem þau veita,“ segir hún.

Viljayfirlýsing stjórnvalda stórt skref

Í tengslum við gerð kjarasamninga, í mars á síðasta ári, milli ríkis og sveitarfélaga annars vegar og tiltekinna aðildarfélaga BSRB hins vegar lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún myndi setja af stað vinnu við að endurmeta störf kvenna. Til þess var skipaður starfshópur með fulltrúum forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda, sem hefur það hlutverk að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði með það fyrir augum að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Sonja segir að starfshópurinn stefni að því að skila tillögum í vor.

Hún telur það mjög stórt skref að ríkisstjórnin hafi lýst því yfir að verðmæti starfa þar sem konur eru í meirihluta séu vitlaust metin. Hún fagnar því að stjórnvöld hafi sýnt vilja til þess að leiðrétta það.