Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tvö reynslumestu liðin mætast í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir - Gettu betur

Tvö reynslumestu liðin mætast í kvöld

19.02.2021 - 11:19

Höfundar

Átta liða úrslit Gettu betur halda áfram í kvöld en nú er komið að Fjölbrautarskólanum við Ármúla að kljást við Tækniskólann. Þetta eru einu lið sjónvarpskeppninnar í ár sem eru óbreytt frá síðasta ári. Lið FÁ komst í undanúrslit í fyrra en lið Tækniskólans datt út eftir átta liða úrslitin.

Það eru þau Elínrós Birta Jónsdóttir, Þráinn Ásbjarnarson og Jón Jörundur Guðmundsson sem keppa fyrir hönd Fjölbrautarskólans í Ármúla og hafa velgengni sína frá síðasta ári að verja. Liðið kemur fíleflt til leiks með góða þekkingu á raungreinum, sögu og landafræði en töluvert minni þekkingu, að sögn Þráins, á svokölluðum „kvennamálum.“ Liðið býr jafnframt yfir breiðri aldursskiptingu en Jón Jörundur er á átjánda ári og Elínrós Birta verður 24 ára síðar á árinu. 

Lið Tækniskólans skipa þau Auður Aþena Einarsdóttir, Emil Uni Elvarsson og Þorsteinn Magnússon en liðsmenn eiga uppruna sinn frá höfuðborgarsvæðinu og úr Bolungarvík á norðanverðum Vestfjörðum. Þorsteinn vill ekki gefa upp sérþekkingu sína í keppninni, líklega af ótta við að þekkingin nýtist andstæðingnum, en Auður Aþena ber ábyrgð á bókmenntaspurningum keppninnar sökum þekkingar sinnar á Harry Potter bókaflokknum. Eins og áður segir komst liðið í átta liða úrslit í fyrra en þurfti þá að lúta í lægra haldi fyrir fyrnasterku liði Borgarholtsskóla sem mætti að lokum MR í úrslitum. 

 

Þriðja umferð átta liða úrslita Gettu betur hefjast í beinni útsendingu klukkan 19:40 í kvöld, á RÚV.