
Rýmingarviðmiði breytt á Seyðisfirði
Fleira en úrkomuspá hefur áhrif á rýmingar
Ekki var spáð mjög mikilli úrkomu á þriðjudag og aðeins um 45 millimetrar komu í mæla Veðurstofunnar. En samhliða rigningunni var hláka og úrkoma sem féll tveimur dögum áður var enn að skila sér niður. Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðavakt Veðurstofunnar var helgarrigningin og rigningin eftir helgi túlkuð sem eitt úrkomutímabil sem jafngilti meira en 100 millimetra úrkomu. Þar við bættist leysing vegna hláku. Í rigningunni á Seyðisfirði í vikunni hækkaði vatnsþrýstingur í borholum í hlíðinni meira en mælst hefur síðan skriðurnar féllu í desember. Ekki mældist hins vegar marktæk hreyfing á jarðlögum.
Rýmingarviðmið fara hækkandi - meira þarf til
Veðurstofan er að koma sér upp eins konar rýmingarviðmiðum fyrir Seyðisfjörð og samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðavakt verða þau viðmið hækkuð eftir þessa rýmingu. Lítið þurfti til að rýma fyrst eftir hamfarirnar, jafnvel aðeins um 50 millimetra úrkomu en eftir því sem lengra líður frá og jarðlög verða stöðugri þarf meira til að Seyðfirðingum verði gert að rýma húsin.
Læra á nýtt landslag
Skriðurnar í desember breyttu landslagi og aðstæðum í hlíðinni fyrir ofan Seyðisfjörð sunnanverðan, þar eru brött brotsár í jarðlögum og nýjar sprungur. Sérfræðingar eru sífellt að læra meira á hvernig hlíðin hegðar sér í úrkomu og leysingu og hversu miklu vatni hún ræður við að skila til sjávar án vandræða. Þá eru líka að bætast við upplýsingar úr nýjum mælitækjum og borholum í hlíðinni. En til að hægt sé að hækka viðmiðið enn frekar og minnka líkur á að Seyðfirðingar þurfi að rýma þarf að fá meiri reynslu og eina leiðin til þess er að sjá hvernig hlíðin bregst við enn meiri úrkomu og leysingum. Því eru líkur á að Seyðfirðingar þurfi að rýma aftur í varúðarskyni í næstu stórrigningu þegar mælingar og spár gefa til kynna enn meiri rigningu og leysingu en varð í byrjun vikunnar. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að þá fæst reynsla og þekking sem gerir vonandi kleift að rýma sjaldnar í framtíðinni.