Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Leiguverð heldur áfram að lækka

19.02.2021 - 08:25
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Leiguverð heldur áfram að lækka á höfuðborgarsvæðinu en þegar horft er á þróun vísitölu leiguverðs tólf mánuði aftur í tímann lækkaði verðið annan mánuðinn í röð, samkvæmt nýjum tölum frá Þjóðskrá Íslands. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fjallaði um verðþróunina í gær.

Í desember var örlítil lækkun á vísitölunni milli ára en í janúar var töluverð lækkun eins og sést á myndinni hér að neðan. 

Mynd með færslu
 Mynd: HMS

Samkvæmt HMS er þetta aðeins í þriðja skipti sem 12 mánaða vísitalan lækkar milli mánaða, eins langt og gögn ná til eða ársins 2011. Það gerðist fyrst í maí 2020 þegar breytingin var -0,15 prósent, svo aftur í desember þegar hún var -0,05 prósent, en nú í janúar var lækkunin mun meiri, um 1,9 prósent.

Mynd með færslu
 Mynd: HMS

Þróunin á landsbyggðinni hefur verið með svipuðu móti og á höfuðborgarsvæðinu. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur 12 mánaða breyting á leiguverði verið á hraðri niðurleið frá árinu 2018 en með nokkrum sveiflum. Sömu þróun má greina þar og á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún tók við sér milli maí og júní í fyrra en hefur verið á niðurleið síðan þá. 

En hvers vegna hefur leiguverð lækkað?

Í skýrslu HMS um stöðu og þróun húsnæðismála árið 2021, sem kom út í lok  janúar, var fjallað um að lækkað leiguverð skýrðist ekki síst af vaxtalækkunum á nýliðnu ári, sem auðveldaði fólki að færa sig af leigumarkaði og yfir í eigið húsnæði. Þá hefur fækkun ferðamanna haldið leiguverði í skefjum; þeim íbúðum sem eru leigðar út á Airbnb hefur fækkað og þær eru nú gjarnan til leigu á almenna markaðnum. Þannig hefur framboð af leiguíbúðum aukist um leið og eftirspurnin hefur dregist saman.