Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Krefjast sýknudóms í síðasta hrunsmálinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verjendur þriggja æðstu stjórnenda Kaupþings fyrir hrun kröfðust í morgun sýknudóms yfir þeim í síðasta hrunsmálinu.

Lokadagur síðustu hrunsréttarhaldanna er runninn upp og hafa verjendur átt sviðið framan af degi.

Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, reið á vaðið. Hann bar fram margþætta gagnrýni á málflutning ákæruvaldsins, meðal annars að það liti fram hjá upphafi málsins með aðkomu Deutsche Bank og stöðu beggja banka. Hún var metin góð þegar ákvörðun var tekin um lánveitingarnar sem ákært er fyrir.

Hörður Felix vísaði á bug orðum saksóknara í gær um að líkja mætti þessu máli við Al Thani og markaðsmisnotkunarmál Kaupþings, sem sakfellt var fyrir. Hann sagði að enginn vafi léki á að viðskipti sem lánað var fyrir væru lögleg. Mikill munur væri á skuldabréfum með góðum umsömdum vöxtum og hlutabréfum sem gætu sveiflast í verði. Þetta hefði verið álitinn gulltryggður díll, eins og það hefði verið orðað fyrir hrun.

Hörður Felix og Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, sögðu aðkomu sakborninga að hinum umdeildu lánveitingum alls ekki eins og ákæruvaldið lýsti, auk þess sem bankinn hefði verið með traustar tryggingar.

Gestur lagði áherslu á að ákæruvaldið hefði aldrei rannsakað sem skyldi samkomulag Deutsche Bank við Kaupþing um endurgreiðslur, eins og Hæstiréttur hefði fyrirskipað. Því yrði að sýkna í málinu. Hann gagnrýndi líka að sakborningar sættu nú ákæru í þriðja, fjórða og fimmta skipti þegar í raun hefði átt að reka öll málin saman eða velja alvarlegustu brotin til að ákæra fyrir.

Málflutningi verður haldið áfram í Landsrétti eftir hádegi og lýkur síðar í dag.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV